Innlent

Skiptar skoðanir á ljósasýningu í Hörpu

Um hundrað þúsund manns nutu menningar og blíðu á götum miðborgarinnar í gærkvöld á stærstu menningarnótt Reykjavíkur til þessa. Margir töldu hins vegar ljósabúnað Hörpunnar heldur fátæklegan þegar hann var frumsýndur í gær. Sumir veltu meira að segja upp spurningunni hvort hann hefði bilað. Fréttastofan leitaði svara.

Það var nóg um að vera í borginni í gærkvöld og alls staðar var margt fólk en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni voru um hundrað þúsund manns í miðborginini. Gestir menningarnætur nutu veðurblíðunnar og þess sem stóð þeim til boða. Ingólfstorg var gersamlega stappfullt á afmælistónleikum Bylgjunnar og Arnarhóll var jafnframt þétt setinn þegar tónelikar Rásar tvö hófust.

Laust fyrir klukkan ellefu biðu svo Reykvíkingar eftir því að ljósin í glerhjúpi Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhússins sem einnig var vígt í gær, yrðu tendruð í fyrsta sinn með mikilli eftirvæntingu.

Bloggheimar og samskiptamiðlar loguðu hins vegar í gærkvöld og í morgun en margir töldu ljósasýninguna heldur fátæklega. Sumir veltu upp spurningunni hvort ljósabúnaðurinn hefði hreinlega bilað. Fréttastofan kannaði málið, en svo reyndist ekki vera. Ólafur Elíasson hannaði ljósin en í samtali við fréttastofu segir framkvæmdastjóri Hörpu ljósasýninguna vera í anda Ólafs. Ljósabúnaðurinn bjóði upp á ýmsa möguleika og því fái Reykvíkingar að njóta Hörpu, baðaðri ýmis konar litum og ljósum, í framtíðinni.

Þeir sem hefðu þráðu meira fútt og sjónarspil fengu þó vonandi sinn skammt þegar flugeldasýning Vodafone hófst við hafnarbakkan skömmu síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×