Erlent

Rússneski njósnarinn Anna Chapman aftur í sviðsljósinu

Rússneski njósnarinn og kynbomban Anna Chapman er aftur komin í sviðsljósið. Nú vegna diplómatískar deilu milli Írlands og Rússlands

Utanríkisráðuneyti Írlands hefur ákveðið að vísa háttsettum rússneskum diplómat úr landi vegna tengsla hans við rússneska njósnahringinn sem upprættur var í Bandaríkjunum í fyrra.

Þessi ákvörðun kemur í kjölfar rannsóknar írsku lögreglunnar á þjófnaði á sex írskum vegabréfum sem rússnesku njósnararnir notuðu til að villa á sér heimildir.

Í frétt um málið á BBC segir að rannsóknin hafi meðal annars leitt í ljós að Anna Chapman hafi líklega notfært sér skilríki sem stolið var frá Eunan Gerard Doherty meðlimi Barnahjálparinnar To Russia With Love sem staðsett er í Dublin. Doherty hefur getið sér gott orð fyrir vinnu sína í þágu munaðarlausra barna í Rússlandi.

Rússnesk stjórnvöld ætla ekki að taka þessu þegjandi. Valdimir Titov aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands segir að þeir muni gjalda írskum stjórnvöldum í sömu mynt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×