Innlent

Djörf túlkun Ögmundar að flugvöllurinn verði um kyrrt

Innanríkisráðherra vonast til að samkomulag verði undirritað við Reykjavíkurborg sem tryggi að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni. Borgarfulltrúi Vinstri Grænna segir þetta djarfa túlkun ráðherra á samkomulaginu.

Borgarstjórn Reykjavíkur ræðir nú um drög að samkomulagi við samgöngumálaráðuneytið um að falla frá hugmyndum um samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll en í stað þess bæta aðstöðu þeirra sem sinni innanlandsflugi við flugvöllinn. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir samkomulagið fela í sér að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna og flokkssystir innanríkisráðherra telur samkomulagið hins vegar ekki fela í sér neina ákvörðun um staðsetningu flugvallarins. Það fjalli eingöngu um aðstöðu flugfélaga á Reykjavíkurflugvelli til skamms tíma.

Sóley segir aðalskipulag Reykjavíkurborgar gera ráð fyrir því að starfsemi flugvallarins byrji að dragast saman árið 2016 og að hann verði alveg farinn árið 2024.

Ögmundur segist hins vegar vera þeirrar skoðunar sem íbúi Reykjavíkurborgar og ráðherra samgöngumála að flugvöllurinn eigi að vera á sínum stað í Vatnsmýrinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×