Innlent

Torfajökul og Kerlingafjöll efst á verndunarlista

Samkvæmt verkefnisstjórn um rammaáætlun er talið að virkjunarsvæði við Torfajökul og Kerlingafjöll eigi helst að vernda á meðan virkjanir við neðri Þjórsá eru taldar hafa lítil óæskileg áhrif á náttúruna og hátt nýtingargildi.

Verkefnisstjórn um rammaáætlun skilaði í dag skýrslu um 2. áfanga áætlunarinnar til umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra. Í skýrslunni er 66 virkjunarkostum raðað annars vegar eftir nýtingarsjónarmiði og hins vegar verndunarsjónarmiði.

"Það sem að lagt er til grundvallar í röðuninni það eru niðurstöður faghópa 1 og 2, sem að annars vegar voru að skoða náttúru og menningarminjar og hins vegar ferðaþjónustu og önnur hlunnindi eða beit og aðra nýtingu á þessum svæðum" segir Svanfríður Jónasdóttir, formaður verkefnisstjórnarinnar.

Í skýrslunni eru virkjanir á Hellisheiði, við Blönduveitu og á Reykjanesi metnar æskilegastar til nýtingar en þar eru virkjunarframkvæmdir nú þegar hafnar eða aðrar virkjanir þar fyrir svo umfram röskun á landi telst lítil að mati faghópa.

Svanfríður segir listann vera grunn að endanlegri flokkun þessarra svæða og mun hann vera notaður til að undirbúa nýja þingsályktunartillögu um verndar- og orkunýtingaráætlun.

"Þannig einhver þessarra svæða þar sem hægt væri að fara í orkuvinnslu hafa það hátt verndargildi að það er niðurstaðan að sé réttara að þau séu vernduð."

Efst á verndunarlistanum eru svæði við Torfajökul og Kerlingafjöll. Þá er áhugavert að virkjun við Hólmsá í Skaftártungu er í sextánda sæti á verndunarlistanum en þar hefur Landsvirkjun nú þegar áætlað virkjun.

Einnig er áhugavert að skoða hvar virkjanir í neðri Þjórsá lenda á listanum. Holtavirkjun og Hvammsvirkjun eru í fimmtánda og sextánda sæti yfir svæði sem æskilegt er að virkja og í tuttugasta og áttunda sæti er síðan Urriðafossvirkjun. Einnig eru þessar virkjanir á neðri hluta verndunarlistans.

"í sjálfu sér er ekki verið að gefa grænt ljós á neitt með þessarri skýrslu eða þessarri röðun með því , hins vegar þá hlýtur ráðuneytið sem gengur frá þingsályktunartillögunni að sjá hvar á listanum einstakar virkjunarhugmyndir eru."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×