Innlent

Aðeins fimm af 266 ferðum felldar niður

Herjólfur.
Herjólfur.
Á tímabilinu frá 4. maí til 5 júlí hafa fallið niður 5 ferðir af 266 eða innan við 2% af ferðum Herjólfs samkvæmt tilkynningu sem Eimskip sendi frá sér í hádeginu vegna umræðu um ferjuna.

Eimskip gagnrýnir umræðuna um niðurfellingu ferða í tilkynningunni og segir hana á villigötum.

„Vill Eimskipafélagið af því tilefni taka fram að félagið ber fullt traust til skipstjóra Herjólfs enda eru þar á ferð grandvarir skipstjórnarmenn með mikla reynslu af siglingum Herjólfs en hlutverk þeirra hefur m.a verið að miðla af reynslu sinni við siglingar til þess að aðilar sem tengjast verkefninu getið áttað sig á þeim erfiðu aðstæðum sem eru í Landeyjahöfn, hvað þarf að bæta og hverju þarf að breyta."

Hér fyrir neðan er hægt að lesa yfirlýsingu Eimskips í heild sinni.

Yfirlýsing frá Eimskipafélagi Íslands

Eimskipafélag Íslands vill koma eftirfarandi yfirlýsingu á framfæri við fjölmiðla.

Frá 21. júlí á síðasta ári hefur Herjólfur siglt á milli Eyja og Landeyjahafnar. Þessar siglingar gengu vel yfir sumarmánuðina en frá september fram í janúar fór dýpið, vindur og sjólag að valda erfiðleikum í siglingum milli Landeyjahafnar og Eyja. Siglingastofnun reyndist ekki unnt að dýpka höfnina í vetur með dýpkunarskipinu Skandia. Skýr verkaskipting er á milli aðila og sá Siglingastofnun um hönnun Landeyjahafnar og byggingu þeirra mannvirkja sem þar eru ásamt því að sjá um dýpkun og eftirlit með höfninni. Eimskip sér um daglegan rekstur á skipi, afgreiðslu og aðstöðu fyrir hönd Vegagerðarinnar.

4. maí tókst að opna Landeyjahöfn aftur fyrir siglingum Herjólfs og hefur þeim verið haldið uppi síðan. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafa einhverjar ferðir fallið niður eða verið seinkað vegna veðurs, viðhalds og/eða bilana á skipi. Þessi frávik eru þó mun færri heldur en ætla mætti af umfjöllun fjölmiðla. Í júní flutti Herjólfur um 44.000 farþega milli lands og Eyja. Á tímabilinu frá 4. maí til 5 júlí hafa fallið niður 5 ferðir af 266 eða innan við 2% af ferðum Herjólfs sem verður að teljast mjög gott í ljósi þeirrar veðráttu sem ríkt hefur við Suðurströndina í sumar.

Umræðan um niðurfellingu ferða hefur því miður oft verið á villigötum og oftar en ekki er skipstjórum Herjólfs álasað fyrir að fella niður ferðir. Vill Eimskipafélagið af því tilefni taka fram að félagið ber fullt traust til skipstjóra Herjólfs enda eru þar á ferð grandvarir skipstjórnarmenn með mikla reynslu af siglingum Herjólfs en hlutverk þeirra hefur m.a verið að miðla af reynslu sinni við siglingar til þess að aðilar sem tengjast verkefninu getið áttað sig á þeim erfiðu aðstæðum sem eru í Landeyjahöfn, hvað þarf að bæta og hverju þarf að breyta.

Öryggi farþega, áhafnar og skips er ofar öllum sérhagsmunum, pólitík, deilum og dægurþrasi og mun Eimskipafélagið ekki víkja frá þeirri vinnureglu.

Íslenskir skipstjórnarmenn eru vel menntaðir og þjálfaðir í sínu starfi og treystir Eimskipafélagið sínum skipstjórnarmönnum fullkomlega til að taka ákvörðun í samráði við stjórnendur Eimskips hverju sinni um það hvort siglt sé. Þeir byggja sínar ákvarðanir á reynslu sinni og þeim upplýsingum og gögnum sem þeir hafa hverju sinni. Skipstjórnarmenn láta ekki undan þeim þrýstingi sem kemur frá utanaðkomandi aðilum heldur byggja ákvörðun sína á faglegu mati á aðstæðum til að tryggja öryggi farþega, áhafnar og skips..

Skipstjórar Herjólfs eru að sigla skipinu við mjög erfiðar aðstæður og þeir þurfa að horfa til margra þátta varðandi ákvörðun um hvort siglt er eða ekki. Eftirfarandi þættir eru þeir helstu:

Stærð og hönnun skips, dýpi og sjávarhæð, ölduhæð og öldulengd, straumur, vindátt,vindstyrkur og sjólag í hafnarmynni svo eitthvað sé nefnt. Ekki er hægt að gefa upp neinar nákvæmar viðmiðunartölur fyrir þessa þætti þar sem samspil þeirra er flókið og því verður að treysta skipstjórnarmönnum til að taka réttar ákvarðanir.

Fjölmiðlar hafa beðið um myndbrot úr öryggismyndavélum í Landeyjahöfn sem sýna vandamál sem Herjólfur hefur lent í og hefur Eimskip afhent Rannsóknarnefnd sjóslysa umbeðin gögn en þeir fara með rannsókn slíkra mála. Hvað varðar upplýsingar sem fengnar eru úr AIS kerfi Siglingastofnunar (en siglingaferlarnir eru unnir upp úr þeim gögnum) þá hefur stofnunin eða Vaktstöð siglinga ekki heimild til að afhenda þau gögn nema þá til opinberra aðila svo sem Rannsóknarnefndar sjóslysa og útgerðar skips. AIS kerfið er öryggiseftirlitskerfi og ítrekað eru að berast ábendingar frá Alþjóðasiglingamálastofnuninni IMO um að gögn sem stjórnvöld afla sér með kerfinu séu ekki til almennrar dreifingar.

Eimskipafélagið óskar eftir því við fjölmiðla og aðra að þeir láti af óvæginni gagnrýni sinni og að skipstjórar Herjólfs fái vinnufrið. Það er enginn annar hvati sem liggur að baki þeirra ákvörðunum en sá að tryggja öryggi farþega, áhafnar og skips.

Allt tal um að Eimskipafélagið leggist gegn siglingum til Landeyjahafnar er alrangt. Herjólfur mun sigla í Landeyjahöfn þegar aðstæður leyfa. Hafa þarf í huga að skipstjórnarmenn Herjólfs eru enn að viða að sér þekkingu og reynslu af Landeyjahöfn til að átta sig á því við hvaða aðstæður hægt er að sigla.

Miðað við reynsluna síðasta vetur er ekki ólíklegt að sigla þurfi til Þorlákshafnar hluta ársins en það ræðst af ofangreindum þáttum og skilyrðum sem nefnd voru hér að framan.

Eimskipafélagið telur afar mikilvægt að sem fyrst verði settur á fót virkur starfshópur um siglingar í Landeyjahöfn skipaður sérfræðingum og skipstjórnarmönnum sem viði að sér upplýsingum um mannvirki, skip, veðurfar, sjólag og siglingar sem liggja fyrir og vinni úr þeim gögnum tillögur að lausn til að tryggja hámarksnýtingu Landeyjahafnar til skemmri og lengri tíma.

Eimskipafélagið vill þakka starfsfólki Herjólfs fyrir óeigingjarnt starf við erfiðar aðstæður síðasta vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×