Innlent

Nefndirnar verða ekki kallaðar saman í sumar

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilja fund í iðnaðarnefnd til að ræða stöðu mála varðandi útboð á Drekasvæðinu
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilja fund í iðnaðarnefnd til að ræða stöðu mála varðandi útboð á Drekasvæðinu
Hvorki iðnaðar- né utanríkismálanefnd Alþingis verða kallaðar saman í sumarhléi þingsins þrátt fyrir kröfu stjórnarandstöðuþingmanna. Formenn nefndana segja nefndirnar eingöngu funda í sumarhléi ef brýna nauðsyn beri til.

Þrír þingmenn óskuðu eftir fundi í iðnaðarnefnd til að ræða útboð vegna olíuleitar á Drekasvæðinu sem frestaðist því Alþingi afgreiddi ekki frumvörp um skattalöggjöf sem hingað til hefur fælt olíufélög frá útboðinu.

Kristján L. Möller, formaður nefndarinnar, segist ekki mega kalla nefndina saman. Í 10. gr. laga um þingsköp Alþingis segi að sumarhlé nefnda sé frá 1. júlí til 10. ágúst og að ekki skuli kalla nefndir saman nema brýna nauðsyn beri til. Kristján telur umræðuefni formanns framsóknarflokksins ekki flokkast sem ,,brýna nauðsyn."

„Ég hef alltaf verið viljugur að kalla saman nefndir en er illa við að brjóta lög sem hafa verið sett,“ segir Kristján. Hann segir það ljóst að málið verði afgreitt um leið og þingið kemur saman á ný. Orkumálastjóra hafi gerð grein fyrir því.

Þá óskaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, eftir fundi í utanríkismálanefnd til að ræða ummæli utanríkisráðherra um undanþágur Íslendinga frá fiskveiðilöggjöf Evrópusambandsins og efnahagsvanda evrusvæðisins.

Í samtali við fréttastofu segir Árni Þór Sigurðsson, formaður nefndarinnar, það sama og Kristján. Brýna nauðsyn beri ekki til að kalla nefndina saman og því verði málið rætt í ágúst þegar nefndir Alþingis hefja störf á nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×