Innlent

Útskrifuð af sjúkrahúsi og á leið í skýrslutöku

Þorbjörn Þórðarson skrifar
"Þú átt betra skilið - hvíl í friði“ stóð í kortinu sem hugulsamður vegfarandi lagði við hótel Frón.
"Þú átt betra skilið - hvíl í friði“ stóð í kortinu sem hugulsamður vegfarandi lagði við hótel Frón.
Litháísk kona á tuttugasta og öðru aldursári sem grunuð er um að hafa deytt barn sitt eftir fæðingu á hótel Fróni verður útskrifuð af sjúkrahúsi nú í hádeginu og verður í skýrslutökum hjá lögreglu í dag.

Konan, sem talin er hafa fætt barn sitt á Hótel Fróni á laugardag, þar sem hún vann, var á sunnudag úrskurðuð í tveggja vikna gæsluvarðhald.

Skýrslutaka yfir konuninni mun hefjast eftir hádegi, að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en ekki var hægt að taka skýrslu af konunni fyrr en nú þar sem hún dvaldist á sjúkrahúsi. Og má reikna með að konan verði í skýrslutöku í allan dag.

Skýrslutökum yfir flestum öðrum sem varpað gætu ljósi á málsatvik er lokið. Þar má nefna vini konunnar, fyrrverandi sambýlismann hennar, sem einnig er Lithái, starfsfólk hótelsins og önnur vitni. Eins og komið hefur fram í fréttum virðist enginn sem tengist konunni hafa haft vitneskju um þungun hennar.

Friðrik Smári sagði við fréttastofu nú í morgun að bráðabirgðaniðurstöður krufningar á barninu, sem fannst í ruslageymslu við Hótel Frón síðdegis á laugardag, lægju nú fyrir en ekki væri mögulegt að greina frá þeim að svo stöddu vegna rannsóknarhagsmuna.

Framkvæmd verður geðheilbrigðisrannsókn á konunni. Það er misjafnt hverju sinni hversu langan tíma slík rannsókn tekur en það er dómkvaddur geðlæknir sem framkvæmir hana og þarf hann að hitta konuna nokkrum sinnum áður en hann skilar skriflegu mati.

Eins og komið hefur fram er konan m.a grunuð um að hafa gerst brotleg við 212. gr. almennra hegningarlaga en þar segir að ef móðir deyði barn sitt í fæðingu eða undir eins og það er fætt, og ætla megi að hún hafi gert það vegna neyðar, ótta um hneisu eða sökum veiklaðs hugarástands, þá varði það alltaf fangelsi allt að sex árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×