Innlent

Borguðu klippingu næsta manns á eftir

Fjöldi viðskiptavina Torfa Geirmundssonar greiddi klippingu fyrir þann sem á eftir kom.
Fjöldi viðskiptavina Torfa Geirmundssonar greiddi klippingu fyrir þann sem á eftir kom. Mynd/HAG
Posinn á hársnyrtistofu Torfa Geirmundssonar, rakara við Hlemm, hefur ítrekað tekið rangar upphæðir af kortum viðskiptavina stofunnar á síðustu dögum. Fyrri viðskiptavinur borgar fyrir þann sem á eftir kemur.

Torfi fékk ábendingu um villuna á laugardag, þegar viðskiptavinur hringdi inn og tjáði honum að tvær færslur hefðu verið teknar af kortinu hans. Fyrri upphæðin var sú sem hann greiddi en sú síðari var færsla þess viðskiptavinar sem á eftir kom. Rétt upphæð umrædds viðskiptavinar var 1.500 krónur en upphæð þess næsta var 8.700 krónur. Síðari færslan kom nokkrum mínútum á eftir þeirri fyrri. Viðskiptavinurinn sem átti að borga 8.700 krónur, greiddi ekki neitt.

„Þetta er allt í tómri vitleysu hérna hjá mér,“ segir Torfi, og vill benda þeim viðskiptavinum sínum sem hafa lent í þessu á að hafa samband við sig. „Ég er alveg miður mín og finnst þetta ofboðslega leiðinlegt.“

Torfi bendir á að hann hafi fyrst og fremst áhyggjur af því að gallinn liggi í fleiri posum en sínum. „Það er engin leið að gera sér grein fyrir þessu nema menn skoði kortayfirlitið sitt,“ segir hann.

Rétt upphæð prentast út úr posanum og kvitta viðskiptavinir undir þær. Þetta gerir það að verkum að annar hver viðskiptavinur fær ókeypis hársnyrtingu án þess að gera sér grein fyrir því að sá sem á undan kom borgi fyrir hann.

Torfi hafði samband við Borgun, sem rekur greiðslufyrirkomulag stofunnar, á mánudag. Um klukkan tvö í gærdag komu starfsmenn frá Borgun og skiptu um posa.

Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, segir gallann ekki liggja í kerfi Borgunar, heldur í posanum sjálfum. Færslurnar verði leiðréttar og verið sé að skoða hvað hafi farið úrskeiðis.

„Það sem við sjáum í okkar kerfum er að gallinn liggur ekki þar,“ segir Haukur og segist ekki muna eftir því að þessi tiltekna bilun hafi áður komið upp.

„Yfirleitt eru bilanirnar þannig að þær sjást strax. En því miður er það stundum svo að þær uppgötvast af notendunum. En bilanir geta komið fyrir hjá öllum,“ segir Haukur. Kerfisfræðingar Borgunar eru að skoða hvort villan hafi átt sér stað víðar.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×