Innlent

Sandfangari byggir nýtt land

Vík í Mýrdal
Vík í Mýrdal
Bygging sandfangara, sem er 276 metra langur brimvarnargarður, við Vík í Mýrdal gengur að óskum. Garðurinn gengur hornrétt út frá fjörunni neðan við kauptúnið og hlutverk hans er að fanga sand og hamla þannig landbroti í Víkurfjöru. Þegar hefur verið lokið við 170 metra af garðinum.

Garðurinn er mikið mannvirki. Hann verður um sex metra hár og í hann fara níutíu þúsund tonn af grjóti sem er sótt um 25 kílómetra leið í námu á Eystri-Sólheimaheiði.

Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri í Mýrdalshreppi, segir það mikið fagnaðarefni að verkefnið sé loksins komið í gang. „Þetta skiptir okkur gríðarlega miklu máli. Úthafið hefur brotið stöðugt á ströndinni sunnan við þorpið en við vonum að þetta hjálpi mikið til.“

Íbúar í Vík hafa lengi barist fyrir þessari framkvæmd. Óttast hefur verið að mikið sjávarflóð gangi á land þar sem landbrotið er mest. Það hefði í för með sér skemmdir á mannvirkjum í eigu sveitarfélagsins og húseignum einstaklinga.

- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×