Innlent

Hertar reglur um netaveiði í sjó

Ótta um viðgang laxa- og sjóbleikjustofna er mætt með hertum reglum.
Ótta um viðgang laxa- og sjóbleikjustofna er mætt með hertum reglum. mynd/garðar
Settar hafa verið nýjar reglur um veiðar á göngusilungi í sjó, samkvæmt tilkynningu frá Fiskistofu. Er þeim ætlað að vernda sjóbleikju- og laxastofna á nokkrum svæðum við landið.

Nýjar reglur kveða á um að netaveiði er bönnuð á svæðinu frá Akranesi að Hítará á Mýrum. Nær bannið til þessa og næsta árs frá og með 10. júní til 10. ágúst.

Megintilgangur þessara reglna er að vernda bleikjustofna á Hvítársvæðinu, sem hafa átt mjög undir högg að sækja hin síðari ár en einnig að koma í veg fyrir veiðar á laxi í silunganet þegar mest gengur af laxi.

Á sama tímabili er sjóbleikjuveiði bönnuð með allri strandlengju Þistilfjarðar. Þar eiga sjóbleikjustofnar undir högg að sækja, en einnig á að koma í veg fyrir veiðar á laxi í silunganet. Eins er sett bann við sjóbleikjuveiði með strandlengju Skjálfandaflóa frá ósum Laxár að Tjörnestá af sömu ástæðum. Stórlax hefur mjög átt undir högg að sækja í Laxá í Aðaldal og hefur veiðifélagið brugðist við með því að setja reglur um að eingöngu megi veiða á flugu og sleppa skuli öllum laxi sem veiðist.

Fyrir eru í gildi miklar takmarkanir á netaveiðum göngusilungs í sjó, samkvæmt lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði.

- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×