Innlent

Afsala sér veiðirétti í Elliðaánum

Gunnlaugur Sigurðsson, Reykvíkingur ársins, með maríulax sinn við opnun ánna í sumar.
Gunnlaugur Sigurðsson, Reykvíkingur ársins, með maríulax sinn við opnun ánna í sumar. Mynd/GVA
Borgaryfirvöld hafa ákveðið að þeir veiðidagar í Elliðaánum sem borgin hefur til ráðstöfunar verði nýttir af borgarbúum en ekki borgarfulltrúum og starfsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur eins og löngum hefur verið.

Reykjavíkurborg hefur haft fimm daga til ráðstöfunar í Elliðaánum. Í fyrra afsöluðu borgarfulltrúar sér tveimur dögum og voru Reykvíkingar beðnir um að koma með ábendingar að hvunndagshetjum sem ættu skilið að fá að veiða í ánum. Það fyrirkomulag verður haft áfram. Enn fremur hefur Reykjavíkurborg ákveðið að gefa dugmiklum starfsmönnum borgarinnar kost á því að veiða í ánum í einn dag á góðum tíma. Verða starfsmenn Reykjavíkurborgar hvattir til að benda á samstarfsmenn sem eru vel að veiðinni komnir.

Þá afhendir Reykjavíkurborg Stangaveiðifélagi Reykjavíkur tvo daga í ánum til ráðstöfunar og munu félagsmenn SVFR njóta þeirra auk þess sem félagið mun nýta þá til barna- og unglingastarfs.

Stangaveiðifélagið var stofnað árið 1939 til að leigja veiðirétt í ánni og hafa félagsmenn þess staðið að hreinsun og viðhaldi ánna æ síðan.

- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×