Innlent

Sverrir Jakobsson hlaut 1,6 milljón króna styrk

Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, Sverrir Jakobsson styrkhafi, Sören Langvads (sonur Selmu og Kays) og Hafliði P. Gíslason, prófessor í eðlisfsræði.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, Sverrir Jakobsson styrkhafi, Sören Langvads (sonur Selmu og Kays) og Hafliði P. Gíslason, prófessor í eðlisfsræði. Mynd Kristinn Ingvarsson
Sverrir Jakobsson, aðjunkt í sagnfræði við Háskóla Íslands, hefur hlotið styrk úr sjóði Selmu og Kays Langvads. Stjórn sjóðsins afhenti styrkinn á skrifstofu rektors, föstudaginn 4. febrúar. Styrkurinn er veittur til að efla samskipti og rannsóknasamstarf Háskóla Íslands við danskar stofnanir og háskóla.

Styrkurinn hljóðar upp á 75 þúsund danskar krónur sem samsvara tæplega 1,6 milljónum íslenskra króna.

Sverrir hefur sérhæft sig í hugarfarssögu, rannsóknum á almennu hugarfari fyrri alda og þá sérstaklega viðhorfum Íslendinga á miðöldum til umheimsins. Nýlegar rannsóknir Sverris hafa beinst að rými, valdi og orðræðu í íslensku miðaldasamfélagi, þar sem hann hefur m.a. skoðað hlutverk kirkjugriða og þróun valdatengsla frá persónubundnu valdi til svæðisbundins valds á 13. öld.

Sverrir sinnti fræðistörfum við Árnastofnun í Kaupmannahöfn árin 2008-2010 og hefur einnig verið í skemmri rannsóknarleyfum við þá stofnun og stofnun klassískra fræða, Institut for græsk og latin. Sumarið 2009 kenndi hann við rannsóknaskóla um norræn fræði við háskólann í Árósum. Sverrir mun nýta styrkinn til að stuðla að enn frekara rannsóknasamstarfi íslenskra og danskra fræðasamfélaga.

Sverrir Jakobsson lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands, meistaranámi frá Leeds-háskóla og varði doktorsritgerð sína, Við og veröldin. Heimsmynd Íslendinga 1100-1400, við Háskóla Íslands í apríl árið 2005. Sverrir kennir námskeið á BA- og MA-stigi við Háskóla Íslands, þ.á m. námskeið um sögu Norðurlanda, en auk þess hefur hann verið leiðbeinandi við lokaritgerðir.

Sverrir hefur birt fjölda vísindagreina í íslenskum og erlendum fræðiritum um rannsóknir sínar á sviði sagnfræði. Hann hefur einnig ritað almennt um sögu Norðurlandanna, með áherslu á Danmörku og Noreg. Sverrir er höfundur miðaldakaflans í yfirlitsriti á dönsku um sögu vestnorrænna þjóða sem kemur út í Kaupmannahöfn á þessu ári.

Sjóðurinn Selma og Kay Langvads Legat til udvikling a f den kulturelle forbindelse mellem Island og Danmark var stofnaður með peningagjöf hjónanna Selmu, fæddrar Guðjohnsen, og Kays Langvads, verkfræðings við Háskóla Íslands, árið 1964. Tilgangur sjóðsins er að efla menningarleg tengsl Íslands og Danmerkur.

Í stjórn sjóðsins sitja Sören Langvad, sonur Selmu og Kays Langvads, Hafliði Pétur Gíslason, prófessor í eðlisfræði, og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×