Erlent

Tjónið af flóðunum minnst 600 milljarðar

Ferja hefur þurft kengúrur af umflotnum svæðum yfir á þurrt land með bátum. Fréttablaðið/ap
Ferja hefur þurft kengúrur af umflotnum svæðum yfir á þurrt land með bátum. Fréttablaðið/ap
Ástralar hafa falið hershöfðingja að stýra endurreisnarstarfinu í kjölfar flóðanna miklu í Queensland-fylki undanfarnar vikur.

Queensland er miðstöð kolavinnslu í landinu en vegna flóðanna hefur þurft að loka flestum kolanámum fylkisins, yfir fjörutíu talsins, og ólíklegt er að starfsemi geti hafist þar aftur fyrr en eftir marga mánuði. Þetta hefur þegar haft mikil áhrif á markaði með kol um heim allan.

Flóðin hafa einnig eyðilagt uppskerur og valdið miklum skemmdum á samgöngumannvirkjum. Yfir 1.200 heimili á svæðinu hafa verið kaffærð af flóðunum og tæp ellefu þúsund til viðbótar eru skemmd.

Að loknum neyðarfundi í stjórn fylkisins í gær tilkynnti fylkisstjórinn Anna Bligh að hershöfðingjanum Mick Slater hefði verið falið að leiða endurreisnarstarfið. Hún sagði að þar til svæðið þornaði væri erfitt að meta tjónið af flóðunum. „En ef allt er talið, frá kostnaði íbúa, kostnaði við að endurreisa heimili og innviði samfélagsins og tap hagkerfisins, held ég að það fari vel yfir fimm milljarða markið,“ sagði Bligh. Fimm milljarðar ástralskra dala jafngilda um tæpum 600 milljörðum króna. - sh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×