Innlent

Óvíst hvort ráðherra fari á HM

Ekki liggur fyrir hvort menntamálaráðherra, sem einnig er ráðherra íþróttamála, fari á heimsmeistaramótið í handknattleik til að fylgjast með og hvetja íslenska landsliðið. Ákvörðun um það verður tekin síðar, samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá aðstoðarmanni ráðherrans.

Afar umdeilt var þegar þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fór tvisvar á Ólympíuleikana í Peking í ágúst 2008. Þorgerður var viðstödd setningarathöfnina og fór aftur til að fylgjast með íslenska handboltalandsliðinu sem vann að lokum til silfurverðlauna.

Íslenska liðið hefur unnið alla sína leiki á heimsmeistaramótinu sem fer fram þessa dagana í Svíþjóð. Fyrstu leikirnir í milliriðinum fara fram á morgun og mæta Íslendingar Þjóðverjum klukkan 17:30. Fjölmargir hafa spáð íslenska liðinu afar góðu gengi á mótinu og telja allt eins líklegt að liðið komist í undanúrslit. Vísir ákvað að athuga hvort að Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, hefði ákveðið að skella sér til Svíþjóðar til að fylgjast með handboltalandsliðinu.

Ekki náðist í Katrínu en í samtali við fréttamann sagði Elías Jón Guðjónsson, aðstoðarmaður hennar, óvíst hvort Katrín fari til Svíþjóðar. Ákvörðun um það verði tekin síðar. Slíkri ferð fylgi eðli málsins einhver kostnaður og því þurfi að vega og meta hvor ráðherrann eigi að fara og fylgjast með landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×