Erlent

Hosni Mubarak situr sem fastast

Mynd/AP

Hosni Mubarak Egyptalandsforseti ætlar að sitja á forsetastóli fram að forsetakosning­unum í september. Þetta staðfesti hann í ávarpi til þjóðar sinnar í gærkvöldi. Gekk yfirlýsing hans þvert á staðhæfingar fjölmiðla um að hann ætlaði að stíga niður.

Mubarak sagðist ætla að fela varaforsetanum Omar Suleiman aukna ábyrgð við stjórn landsins en hann myndi ekki láta undan og segja af sér vegna „þrýstings að utan".

Eins og vænta mátti reiddust hundruð þúsunda mótmælenda á götum borga og bæja í landinu við skilaboð forsetans, sem bað aðstandendur fallinna mótmælenda afsökunar á framgöngu öryggis­sveita. Þeir sem ábyrgir eru fyrir drápunum verða sóttir til saka, sagði Mubarak.

Fréttamenn sem voru staddir í miðborg Kaíró í gærkvöldi sögðu mótmælendur vart trúa því að forsetinn ætlaði að sitja áfram og mikil spenna hefði myndast á meðal þeirra. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×