Erlent

Margir skutu af byssum upp í loftið

Fagnað á Tahrir-torgi. Hermenn tóku virkan þátt í fagnaðarlátunum.
nordicphotos/AFP
Fagnað á Tahrir-torgi. Hermenn tóku virkan þátt í fagnaðarlátunum. nordicphotos/AFP

Sannkölluð þjóð­hátíðarstemning var á Tahrir-torgi í Kaíró og víðar í Egyptalandi í gær, þar sem mannfjöldinn fagnaði því að Hosni Mubarak forseti skyldi hafa látið undan þrýstingi fjöldans og sagt af sér eftir nærri þrjátíu ára valdatíð.

Mubarak fól hernum stjórn landsins. Yfirmaður hersins, Mohammed Hussein Tantawi, verður því leiðtogi landsins þangað til efnt verður til kosninga. Mubarak sjálfur forðaði sér frá höfuðborginni og hélt til í höll sinni við Sharm-el-Sheikh syðst á Sínaískaga.

Almenningur virðist nokkuð sáttur við að herinn taki að sér stjórnina, enda hefur herinn notið stuðnings landsmanna þrátt fyrir að hann hafi staðið vörð um stjórn Mubaraks. Margir hermannanna tóku þátt í fagnaðarlátunum í gær.

Á Tahrir-torgi veifaði fólk fánum, ökumenn þeyttu bílflautur, flugeldum var skotið á loft og margir skutu einnig af byssum upp í loftið.

„Þetta er stórkostlegasti dagur lífs míns,“ sagði Mohamed ElBaradei, leiðtogi eins stjórnarandstöðuhópanna, sem líklega mun bjóða sig fram til forseta. „Landið hefur verið frelsað eftir áratuga langa kúgun.“

Bræðralag múslima, ein stærstu samtök stjórnarandstæðinga, fagnaði ákvörðun Mubaraks og þakkaði jafnframt her landsins fyrir að standa við gefin loforð.

Herráð landsins, sem nú fer með stjórnina, sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem það hét því að efna til kosninga sem fyrst. Í yfirlýsingunni sagðist herinn einnig ætla að aflétta hið fyrsta neyðarlögum, sem hafa verið í gildi nærri alla valdatíð Mubaraks, en þó ekki fyrr en herinn teldi það óhætt.

Barack Obama Bandaríkjaforseti, leiðtogar Evrópusambandsins og þjóðhöfðingjar margra ríkja lýstu í gær ánægju sinni með þróun mála í Egyptalandi, en hvöttu jafnframt til þess að lýðræði verði virt.

Það var Omar Suleiman vara­forseti sem skýrði frá því að Mubarak hefði ákveðið að víkja og fá herráðinu völdin í hendur. „Megi guð hjálpa öllum,“ sagði Suleiman í lok ávarps síns, sem var stuttort.

Óljóst er hvernig herinn ætlar að haga málum á næstunni. Samkvæmt stjórnarskrá á að efna til forsetakosninga innan tveggja mánaða ef forseti landsins fer frá.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×