Erlent

Sat saklaus í fangelsi í 30 ár

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Dupree, sem hér sést ásamt eiginkonu sinni, sat saklaust í fangelsi í 30 ár. Mynd/ afp.
Dupree, sem hér sést ásamt eiginkonu sinni, sat saklaust í fangelsi í 30 ár. Mynd/ afp.
Karlmaður sem hefur setið í fangelsi í 30 ár vegna ráns sem hann var talinn hafa framið er saklaus af glæpnum. Maðurinn sem heitir Cornelius Dupree sat í fangelsi frá árinu 1979 þar til í júlí síðastliðinn. Hann hafði verið dæmdur fyrir vopnað rán.

Dupree hafði fengið 75 ára fangelsisdóm en var hleypt úr fangelsi á skilorði í júlí. Viku seinna sýndu DNA niðurstöður að hann var saklaus. Dómari í Texas í Bandaríkjunum, þar sem maðurinn var dæmdur, hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að Dupree var saklaus á grundvelli DNA niðurstaðnanna.

„Það er gleðilegt að vera laus aftur," sagði Dupree við fjölmiðla eftir að hann var látinn laus. Hann viðurkenndi þó að tilfinningar hans væru blendnar vegna þess hversu lengi hann hafði setið inni. „Ég verð að viðurkenna að það er smá reiði en það er líka gleði. Og gleðin er reiðinni yfirsterkari," sagði Dupree eftir því sem fram kemur á fréttavef BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×