Erlent

Drukknir hringdu kirkjuklukkum

Óli Tynes skrifar
Vangen kirkjan er 800 ára gömul.
Vangen kirkjan er 800 ára gömul. Mynd/Wikipedia

Þeir voru ekkert að fara dult með það piltarnir sem brutust inn í hina 800 ára gömlu Vangen kirkju í Aurlandsvangen í Noregi í fyrrinótt. Þeir kneifuðu vín, spiluðu á orgelið og hringdu svo kirkjuklukkunum klukkan fjögur um nóttina. Þeir unnu ekki nein skemmdarverk á kirkjunni en stálu hinsvegar skrúða prestsins. Kirkjuvörðurinn segir í samtali við Sogn Avis að þjófavarnakerfi kirkjunnar hafi verið bilað.

Þótt prestsskrúðanum hafi verið stolið var það þó ekki messuvínið sem kónarnir kneifuðu. Á orgelinu stóð flaska af Chablis 2007. Norska lögreglan var ekki lengi að hafa upp á hinum óboðnu kirkjugestum. Það voru tveir þekktir gleðipinnar um tvítugt sem voru heldur skömmustulegir þegar laganna verðir bönkuðu upp hjá þeim. Þeir skiluðu strax prestsskrúðanum, sem var snyrtilega samanbrotinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×