Enski boltinn

Arsenal vann sannfærandi 3-0 útisigur á Birmingham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsenal komst aftur á sigurbraut með 3-0 útisigri á Birmingham í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Hollendingurinn Robin van Persie skoraði sitt fyrsta deildarmark í átta mánuði og Samir Nasri skoraði sitt þrettánda mark á tímabilinu í þessum sannfærandi sigri Arsenal-liðsins.

Arsenal er nú tveimur stigum á eftir toppliðum Manchester United og Manchester City en öll þrjú efstu liðin unnu leiki sína í dag. Tapið þýðir hinsvegar að Birmingham situr nú í næstneðsta sæti deildarinnar.

Robin van Persie fiskaði ódýra aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig á 13. mínútu og skoraði síðan beint úr aukaspyrnunni með viðkomu í Birmingaham-manninum Lee Bowyer. Þetta var fyrsta deildarmark Hollendingsins síðan 9. maí en hann hafði ekki skorað í fyrstu átta deildarleikjum sínum á þessu tímabili.

Samir Nasri kom Arsenal í 2-0 á 58. mínútu með laglegu merki eftir skemmtilegt samspil við Cesc Fabregas. Þetta var þrettánda mark Frakkans á tímbilinu.

Roger Johnson var síðan fyrir því að skora í eigið mark átta mínútum síðar eftir að Nasri og Fabregas höfðu splundrað vörn Birmingham með laglegu samspili. Skot Fabregas var varið en boltinn fór síðan í Johnson og rann yfir línuna.

Arsenal hélt þarna marki sínu hreinu í fyrsta sinn í átta deildarleikjum eða síðan liðið vann 2-0 sigur á Wolves 10. nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×