Innlent

Ráðherra vildi loka án tafar

Íbúafundur verður haldinn í dag en ákveðið hefur verið að hætta sorpbrennslu á skólatíma.mynd/sigurður k. hjálmarsson
Íbúafundur verður haldinn í dag en ákveðið hefur verið að hætta sorpbrennslu á skólatíma.mynd/sigurður k. hjálmarsson
Svandís Svavarsdóttir umhverfis­ráðherra beindi þeirri ósk til þriggja sveitar­stjórna í gær að hætta eða draga úr sorpbrennslu þar til niðurstöður frekari mengunar­mælinga liggja fyrir. Á Kirkjubæjarklaustri hefur verið hætt að brenna sorp á skólatíma, eins og krafa hefur verið um frá íbúum.

Tilmælin voru send sveitar­stjórnunum eftir að ráðherra hafði fengið staðfest frá Umhverfisstofnun að ekki væri lagaheimild til að stöðva starfsemina fyrirvaralaust, eða þangað til að sóttvarnalæknir hefur lokið við heilsufarsrannsókn á íbúum sveitarfélaganna. Er það álit Umhverfisstofnunar að ekki sé um bráðahættu að ræða og því ekki hægt að láta til skyndilokunar koma.

„En það er rétt. Mín óskastaða hefði verið að sorpbrennslunum hefði verið lokað strax,“ segir Svandís, sem ætlar að hefja könnun á því hvernig setja megi lagaákvæði sem heimili stjórnvöldum að grípa til skyndiráðstafana ef óvissa er um mengun og áhrif hennar á lífríki.

Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og sóttvarnalæknir munu á næstunni efna til borgara­funda með íbúum sveitarfélaga í nágrenni við sorpbrennslustöðvar og verður fyrsti fundurinn haldinn í dag á Kirkjubæjarklaustri. Síðar verður fundað á Ísafirði og í Vestmannaeyjum.

Eygló Kristjánsdóttur, sveitarstjóra í Skaftár­hreppi, hafði ekki borist bréf ráðherra þegar Fréttablaðið ræddi við hana í gær. Hins vegar hefur sveitarfélagið ákveðið að hætta að brenna sorp á skólatíma, en skýr krafa þar um hefur komið frá hópi íbúa. Sorpbrennslan á staðnum og grunnskólinn standa vegg í vegg, eins og fram hefur komið.

Matvælastofnun hefur fellt svæði í nágrenni sorpbrennslu inn í aðskotaefnaáætlun stofnunar­innar fyrir árið 2011 sem nær til búfjár­afurða.svavar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×