Innlent

200 sóttu um starf húsvarðar í Hörpu

Tvö hundruð hafa sótt um starf húsvarðar í Hörpu. Þórunn Sigurðardóttir segir launin ágæt, vinnuna mikla en engar stimpilklukkur verði í húsinu.
Tvö hundruð hafa sótt um starf húsvarðar í Hörpu. Þórunn Sigurðardóttir segir launin ágæt, vinnuna mikla en engar stimpilklukkur verði í húsinu.

Rétt tæplega tvö hundruð umsóknir bárust um starf húsvarðar í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu. Þórunn Sigurðardóttir, stjórnar­formaður Ago, rekstrarfélags Hörpunnar, er ánægð með þann fjölda sem sækist eftir starfinu.

„Við köllum þetta reyndar umsjónarmann fasteigna en það er ljóst að gríðarlega margir hafa áhuga á þessu starfi.“ Að sögn Þórunnar hefur ekki enn verið ráðið í starfið en viðtöl ættu að byrja á næstunni.

Þórunn segir að hlutverk húsvarðarins verði fyrst og fremst að hafa eftirlit með Hörpunni og hafa umsjón með þrifum, en margir hafa haft áhyggjur af því hversu erfitt verði að þrífa glerhjúpinn sem umlykur tónlistarhúsið.

Það verður í mörg horn að líta hjá hinum nýja húsverði. Þannig er stóri salurinn, sem tekur um 1.800 manns í sæti, þétt bókaður eftir að Harpan verður formlega vígð í maí. „Það eru bókaðir í kringum þrennir tónleikar á viku í honum. Og svo er mikil ásókn í minni salina og ráðstefnusalina, svo ekki sé minnst á allar skoðanaferðirnar,“ segir Þórunn og bætir því við að tónleikahaldarar hafi jafnframt sýnt anddyrinu mikinn áhuga, meðal annars forsvarsmenn Iceland Airwaves.

Þórunn viðurkennir að húsvörðurinn eigi eftir að hafa nóg á sinni könnu fyrstu vikurnar eftir opnun. „Og við munum borga bara eðlileg laun. Vinnan verður samt ansi hreint mikil og það verða ekki stimpilklukkur í húsinu.“- fgg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×