Innlent

Bæjarstjóri biðst afsökunar vegna bílamálsins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þetta er bíllinn sem bæjarstjórinn hefur til umráða.
Þetta er bíllinn sem bæjarstjórinn hefur til umráða.
Bæjarstjórinn í Kópavogi ætlar hér eftir að nota bílinn sem hún hefur til umráða í bænum ein, án þess að leyfa dóttur sinni eða öðrum aðgang að honum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem bæjarstjórinn, Guðrún Pálsdóttir, hefur sent frá sér vegna umfjöllunar Fréttablaðsins um notkun á bílnum. Fréttablaðið greindi frá því í morgun að bíll sem Kópavogsbær leggur Guðrúnu Pálsdóttur bæjarstjóra til sé notaður af nítján ára dóttur hennar. Sjálf noti Guðrún stundum aðra bíla bæjarins.

Í fréttatilkynningu frá Kópavogsbæ segir að ráðningarsamningur við bæjarstjórann sé sambærilegur þeim samningum sem gerðir hafa verið við forvera hennar í starfi. Í samningnum séu afnot af bíl hluti af starfskjörum hennar og borgi hún skatt af þeim hlunnindum. Fyrri bæjarstjórar hafi verið með bílastyrk. Hvergi sé í samningnum tilgreint hvernig notkun bifreiðarinnar skuli háttað. Bæjarstjóra sé það hins vegar mikilvægt að sameiginlegur skilningur ríki milli hennar og bæjarstjórnar á túlkun ráðningarsamningins. Hún hafi því lýst því yfir við forseta bæjarstjórnar, Hafstein Karlsson, að framvegis muni hún ein hafa afnot af bifreiðinni.

„Ég tel mikilvægt að enginn vafi leiki á því að ég hafi og muni ávallt starfa af fullum heilindum fyrir bæjarbúa. Það er mikilvægt að ég njóti trausts þeirra og bæjarstjórnar enda starfa ég í þeirra umboði. Í ljósi þess að skilningur minn og bæjarfulltrúa á því hvernig nota megi bifreiðina er ekki sá sami, hef ég tekið af öll tvímæli um það að í framtíðinni muni ég ein nota bílinn. Ég biðst afsökunar á því að hafa túlkað ráðningarsamninginn á þann veg sem ég gerði og hef jafnframt óskað eftir því að hnykkt verði á umræddu ákvæði samningsins," segir Guðrún í tilkynningunni. Undir það tekur Hafsteinn Karlsson, forseti bæjarstjórnar. Hann segir að Guðrún njóti áfram trausts og stuðnings meirihlutans í bænum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×