Innlent

Segir það þjóðhagslega hagkvæmt að vinna Eurovison

Breki Logason skrifar
Íslendingar gætu vel haldið Eurovision hér á landi og grætt á því ef marka má niðurstöður lokaritgerðar í Hagfræði. Höfundurinn er nú er staddur úti í Dusseldorf.

Vinir Sjonna stíga á stokk á fyrra undanúrslitakvöldinu í Dusseldorf í Þýskalandi í kvöld. Væntingarnar til íslenska framlagsins hafa oft verið meiri en í ár, og í gegnum tíðina hafa margir haft áhyggjur af því að ekki sé unnt að halda keppnina hér á landi.

Einn af þeim sem var orðinn þreyttur á þeirri umræðu er Haukur Johnson sem skrifaði lokaritgerð sína í Hagfræði undir yfirskriftinni, Væri þjóðhagslega hagkvæmt að halda lokakeppni Eurovision á Íslandi.

„Niðurstaða mín er að það skilar meira til Íslendinga en það kostar að halda Eurovison hér á landi. Meðal annars fær RÚV miklar tekjur auk þess sem ferðamannaiðnaðurinn hagnast," segir Haukur sem er staddur úti í Dusseldorf. Hann segir mikla stemmningu hafa myndast fyrir íslenska laginu, en á þó síður von á að útreikningar sínar komi að notum strax á næsta ári.

„Ég hef verið að spá norska laginu sigri en ég held að íslenska laginu eigi eftir að ganga vel," segir Haukur.

En hvað með Austantjaldsmafíuna, á hún eftir að fara illa með okkur í ár?

„Ég hafna því algjörlega að það sé eitthvað sem heitir austur evrópska mafían. Reynslan hefur sýnt að kræfasta mafían er skandinavíska mafían þannig við ættum að fara varlega í þeim efnum," segir Haukur að lokum.

Keppnin stendur nú yfir en Ísland er fjórtánda þjóðin sem stígur á stokk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×