Erlent

Átökin hörnuðu eftir því sem leið á daginn

Hundruð manna hafa særst og einn fallið í átökum mótmælenda og stuðningsmanna Hosni Mubaraks í Kairó höfuðborg Egyptalands í dag. Átökin hafa harnað eftir því sem liðið hefur á daginn en herinn hefur að mestu haldið sér til hlés.

Fjöldi mótmælenda í Kairó náði hámarki í gærkvöldi þegar á aðra milljón manna komu saman á Frelsistorginu og nágrenni þess. Hosni Mubarak forseti ávarpaði þjóðina í gærkvöldi, lofaði stjórnarumbótum en sagðist jafnframt ætla að sitja út kjörtímabil sitt sem lýkur í september en hann myndi þá ekki bjóða sig fram aftur. Þetta hleypti illu blóði í mótmælendur sem halda fast við kröfu sína um að forsetinn segi af sér nú þegar og hafa þeir gefið forsetanum frest til föstudags til að verða við þeirri kröfu.

Í dag tóku leikar að æsast þegar stuðningsmenn forsetans blönduðu sér í raðir mótmælenda. Þeir riðu inn á torgið á hestum og kameldýrum og grýttu mótmælendur. Fljótlega kom til handalögmála og þegar líða tók á daginn færðust átökin í aukana. Hundruð manna hafa slasast, þar af sumir alvarlega. Herinn skoraði á mótmælendur í gær að snúa til síns heima í nafni þjóðarinnar. Þeir hefðu komið kröfum sínum á framfæri. Mótmælendur hafa ekki orðið við þessu og í dag hefur herinn að mestu haldið sér til hlés. Bandaríkjaforseti ávarpaði heimsbyggðina frá Hvíta húsinu í gærkvöldi og sagðist Obama hafa rætt við Mubarak í síma í gærkvöldi, sem gerði sér grein fyrir að núverandi ástand gæti ekki haldið áfram.

Enn eru tugþúsundir manna í miborg kairó, lang flestir andstæðingar forsetans og átök halda áfram milli þeirra og stuðningsmanna forsetans. En nú er klukkan að verða níu að kveldi í Egyptalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×