Fótbolti

Guardiola ætlar ekki að breyta leikstíl Barcelona fyrir Real-leikina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola og Jose Mourinho.
Pep Guardiola og Jose Mourinho. Mynd/Nordic Photos/Getty
Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, ætlar ekki að breyta leikstíl Barcelona fyrir leikina á móti Real Madrid í Meistaradeildinni þátt fyrir að Barcelona hafi tapað 0-1 fyrir Real Madrid í bikarúrslitaleiknum í vikunni.

Jose Mourinho lá með lið sitt aftarlega á vellinum og beitti skyndisóknum sem Barcelona-menn lentu í vandræðum með. Guardiola segir að Barcelona muni halda áfram að spila hreinræktaðan sóknarbolta.

„Það er eins og menn vilji kenna leikstíl okkar um að við töpuðum þessum úrslitaleik. Hvort sem við vinnum eða töpum þá verður leikstíllinn alltaf sá sami. Eini fótboltinn sem ég kann er sóknarbolti. Heimspeki félagsins gengur líka út á sóknarbolta og ég ætla ekki að fara að breyta því," sagði Pep Guardiola á blaðamannafundi fyrir leik helgarinnar sem er á móti Osasuna.

„Við ætlum að sækja á móti Real Madrid og reyna að skora mörk á Bernabeu," sagði þessi fertugi þjálfari Barcelona sem mætir til Mardríd á miðvikudagskvöldið þar sem fyrri undanúrslitaleikur liðanna fer fram.

Guardiola segir að það komi ekki til greina að sínir leikmenn festist í einhverri sjálfsvorkunn eftir bikartapið á móti Real.

„Leikmennirnir þurfa bara að svara þessu inn á vellinum því það er vinnan þeirra. Ef þeir eru reiðir eða leiðir þá þurfa þeir bara að hlaupa meira og leggja meira á sig í næstu leikjum. Það er eina leiðin til þess að komast yfir svona tap. Þeir sem ætla að vorkenna sjálfum sér geta bara setið upp í stúku," sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×