Innlent

Tveir kært Hornafjörð vegna hreindýradrápa

Erla Hlynsdóttir skrifar
Tveir dýraverndunarsinnar hafa kært sveitarfélag Hornafjarðar fyrir meint brot á lögum um dýravernd og girðingarlögum. Fjöldi hreindýra hefur drepist í sveitarfélaginu eftir að hafa flækst í girðingarvír.

Fréttastofa fjallaði ítarlega um það í vetur þegar fimm hreindýr drápust eftir að hafa flækt sig í girðingarvír í Flatey á Mýrum. Eitt dýranna þurfti að aflífa eftir að það var fast við dautt dýr á hornunum í nokkra daga og gat ekki nærst.

Hópur, skipaður fulltrúum Samtaka lífrænna neytenda meðal annarra, fór þá á svæðið til að ræða við bændur og hreinsa upp flæktan girðingavír. Kærendurnir, Árni Stefán Árnason og Óskar H. Valtýsson, voru í þessum hópi.

Þeir lögðu kæruna fram til lögreglustjórans á Eskifirði í gær, en auk þess að kæra sveitarfélag Hornafjarðar, kæra þeir bónda á svæðinu og fyrirtækið Lífsval sem þarna á land.

Kærendur líta svo á að brot á girðingarlögum hafi leitt til brota á lögum um dýravernd. Þannig felist meint brot bóndans og Lífsvals í því að þau hafi sinnt viðhaldi á girðingum, og meint brot sveitarfélagsins í að það hafi ekki látið fjarlægja ónýtar girðingar.

Enginn þeirra kærðu hafði fengið kæruna í hendur þegar fréttastofa náði tali af þeim í dag. Talsmaður Lífsvals sagði í samtali við fréttastofu að kæran kæmi mjög á óvart enda væru nú engar ónýtar girðingar í landi fyrirtækisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×