Sport

Sarah Blake tryggði sér sæti í undanúrslitum | Ragnheiður fjarri sínu besta

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sarah Blake Bateman tryggði sér í morgun sæti í undanúrslitum í 50 metra skriðsundi á Evrópumeistaramótinu í Ungverjalandi. Fjórar íslenskar sundkonur voru meðal keppenda í undarásum en aðeins Sarah komst áfram í undanúrslit.

Sarah Blake kom í mark á 25,43 sekúndum sem er aðeins 16/100 frá OQT Ólympíulágmarkinu sem er 25,27 sekúndur. Hún var með tíunda besta tímanum í undanrásunum en Íslandsmet hennar frá því fyrr á árinu er 25,31 sekúndur.

Sarah Blake keppir í undanúrslitum síðar í dag. Ekki liggur fyrir þátttaka hjá henni á fleiri mótum þar sem hún getur tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum. Því gæti verið um síðasta tækifæri hennar til að tryggja sér sæti á leikunum í undanúrslitasundinu.

Ragnheiður Ragnarsdóttir úr KR kom í mark á tímanum 26,14 sekúndum en hennar besti tími er 25,57 sekúndur. Ragnheiður hafnaði í 32. sæti af 59 keppendum.

Ragnheiður stefnir á þátttöku á Mare Nostrum mótaröðinni í júní og reynir þá að ná OQT-lágmarkinu fyrir Ólympíuleikana.

Eva Hannesdóttir úr KR náði sér ágætlega á strik og var 5/100 frá sínum besta tíma. Eva synti á 26,22 sekúndum og hafnaði í 35. sæti.

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir úr Sundfélagi Hafnarfjarðar hafnaði í 54. sæti á tímanum 27,10 sekúndum. Besti tími Ingibjargar er 26,80 sekúndur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×