Íslenski boltinn

Katrín Ýr rifbeinsbrotin | Missir af næstu leikjum Selfoss

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úr leik Vals og Selfoss á dögunum.
Úr leik Vals og Selfoss á dögunum. Mynd/Valli
Katrín Ýr Friðgeirsdóttir, framherji Pepsi-deildarliðs Selfoss, verður frá keppni í 3-7 vikur vegna rifbeinsbrots. Þetta kemur fram á selfoss.org.

Katrín fór meidd af velli undir lok fyrri hálfleiks í 4-1 tapinu gegn Val í 2. umferð síðastliðinn föstudag. Hún hafði staðið sig afar vel í framlínu nýliðanna og valdið töluverðum usla hjá varnarmönnum bikarmeistaranna.

Selfoss verður því án hennar í nýliðaslagnum gegn FH á Selfossi í kvöld. Melanie Adelman ætti þó að vera klár í slaginn en hún þurfti að skreppa til Bandaríkjanna af persónulegum ástæðum og missti fyrir vikið af leiknum gegn Val.

Selfoss er með eitt stig að loknum tveimur leikjum en FH situr í 2.-3. sæti deildarinnar með fjögur stig. Liðin mættust í úrslitaleik 1. deildar síðastliðið sumar eftir að bæði lið höfðu tryggt sæti sitt í efstu deild. Þá vann FH öruggan 6-2 sigur.

Leikur Selfoss og FH hefst í kvöld klukkan 19.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×