Fótbolti

Fyrrum forseti Real Madrid: Orð Mourinho hjálpa ekki liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ramon Calderon, fyrrum forseti Real Madrid, hefur gagnrýnt ummæli þjálfarans Jose Mourinho eftir 1-0 tapið á móti Sevilla í spænsku úrvalsdeildinni um helgina. Real Madrid hefur aðeins náð í fjögur stig í fyrstu fjórum umferðunum og þegar orðið átta stigum á eftir Barcelona.

Jose Mourinho talaði um það eftir leikinn að það væri engin liðsheild hjá Real Madrid liðinu en liðið er búið að tapa bæði fyrir Getafe og Sevilla í upphafi móts.

„Orð Mourinho munu ekki hjálpa liðinu á þessari stundu. Leikmennirnir gætu alveg eins sagt að þeir séu ekki með þjálfara," sagði Ramon Calderon.

„Ég get ekki ímyndað mér að leikmenn liðsins séu ánægðir með þessi ummæli Mourinho. Ég trúi því að leikmennirnir séu að gefa allt sitt í leikina," sagði Calderon.

Real Madrid, sem er þegar búið að tapa átta stigum í fyrstu fjórum leikjunum, tapaði bara 14 stigum í 38 leikjum alla síðustu leiktíð og tókst að binda enda á þriggja ára sigurgöngu Barcelona í spænsku deildinni.

Næsti leikur Real Madrid er á móti Manchester City í Meistaradeildinni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×