Innlent

Svavar dæmdur til að greiða Jóni Ásgeiri bætur fyrir meiðyrði

Svavar Halldórsson fréttamaður var í Hæstarétti Íslands dag dæmdur til að greiða Jóni Ásgeiri Jóhannessyni kaupsýslumanni 300 þúsund krónur í miskabætur fyrir meiðyrði vegna staðhæfinga um Jón Ásgeir í frétt sem birtist í kvöldfréttum Rúv. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður sýknað Svavar.

Málið snýr að frétt sem Svavar skrifaði um Fons, félag Pálma Haraldssonar, en fréttin fjallaði um þriggja milljarða króna lán félagsins til huldufélagsins Pace Associates, sem skráð var í Panama.

Í fréttinni, sem birtist 6. desember 2010, kom fram að Landsbankinn hafði stofnað Pace Associates þegar hann var kominn út fyrir heimildir til að lána beint til fasteignasjóðs á Indlandi. Baugur, Hannes Smárason og Kevin Stanford hafi verið hluthafar í sjóðnum og hafi féð á endanum runnið í vasa þeirra Pálma, Jóns Ásgeirs og Hannesar Smárasonar. Lán Fons var veitt Pace Associates í gegnum Landsbankann í Lúxemborg.

Málið var höfðað vegna eftirfarinna ummæla í fréttinni: „„Fons er á hinn bóginn gjaldþrota og þrotabúið leitar fjárins. Það hafa yfirvöld hér á landi líka gert, eins og við höfum áður greint frá, og þau telja sig komin á slóð peninganna, enda hafa þau undir höndum gögn sem benda til þess að þeir Pálmi, Jón Ásgeir Jóhannesson og Hannes Smárason, hafi skipulagt Panama-fléttuna fyrirfram. Það er að koma peningunum út til Panama en síðan hafi féð ratað aftur eftir krókaleiðum í vasa þremenninganna."

Í dómi Hæstaréttar segir að ummælin verði ekki skilin á annan veg en að með þeim sé verið að bera Jón Ásgeir á brýn háttsemi sem sé refsiverð. Svavar er ekki talinn hafa sýnt fram á að framangreind fullyrðing eigi við rök að styðjast og þar af leiðandi voru ummæli í fréttinni dæmd dauð og ómerk.

Þá er í dómnum slegið föstu að Svavar hafi ekki gætt starfsreglna Ríkisútvarpsins með því að hafa ekki samband við Jón Ásgeir við vinnslu fréttarinnar. „hefur stefndi ekki sýnt fram á að hann hafi við vinnslu fréttarinnar leitað eftir upplýsingum frá áfrýjanda um efni hennar,"eins og segir í dómnum.

Þetta er í annað sinn á innan við ári sem Svavar er dæmdur fyrir meiðyrði. Því hinn 24 nóvember 2011 voru ummæli hans um Pálma Haraldsson dæmd dauð og ómerk og Svavari gert að greiða Pálma miskabætur.

Auk þess að greiða 300 þúsund krónur í bætur þarf Svavar að greiða 1 milljón í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×