Innlent

Myndatökur við dómshús þörf umræða

„Það er ekki nokkur vafi á því að fólki finnist þetta óþægilegt. Menn hafa leitað til okkar og beðið um hjálp við að forðast myndatökurnar."

Þetta sagði Símon Sigvaldason, formaður Dómstólaráðs. Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi þess efnis að myndatökur í og við dómshús verði bannaðar. Aðrir en dómstólarnir sjálfir mega því ekki taka upp myndskeið eða myndir í dómshúsum.

„Þessi hugmynd er ekki ný af nálinni," segir Símon. „Um þetta eru skiptar skoðanir og mismunandi hagsmunir takast hér á. Annars vegar er það rík krafa fjölmiðlamanna um að komast að dómshúsinu og taka myndir. Hins vegar krafa þeirra sem eiga hlut að máli, að þeir fái vernd fyrir þessu."

Símon sagðist ekki geta svarað því hvað hvort að hann væri fylgjandi hugmyndum Sivjar. Það væri hlutverk Alþingis að fjalla um þetta mál.

„Við í Dómsmálaráði höfum skilning á báðum sjónarmiðum," sagði Símon og bætir við: „Ef fjölmiðlum verði meinað að taka myndir við dómshúsið þá gæti leikurinn borist annað. Það er ekkert sem stöðvar fjölmiðla hafi þeir vilja til að koma myndum til skila."

Þá segir Símon að hann viti af mörgum tilfellum þar sem sakborningar, brotaþolar, vitni og aðrir hagsmunaaðilar hafa lýst óánægju sinni með myndatökur fjölmiðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×