Innlent

Ósýnilega fyrirtækið með 350 manns í vinnu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Það er kallað stærsta ósýnilega fyrirtæki landsins og er með yfir þrjú hundruð manns í vinnu, - byggðist upp á þjónustu við íslensk álver og smíðar nú sérhæfðan vélbúnað fyrir álver víða um heim.

Það heitir Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar ehf., eða VHE. Meginverkefnið er að viðhalda tækjum og vélbúnaði álveranna á Reyðarfirði og í Straumsvík og fyrir austan fundum við það í húsunum með bláu þökunum við hlið álvers Fjarðaáls.

Þegar menn heyra nafn fyrirtækisins dettur sennilega mörgum í hug lítið verkstæði í skemmu í einhverju iðnaðarhverfinu. Starfsmannafjöldinn og umsvifin eru hins vegar slík að á íslenskan mælikvarða telst þetta vera eitt af stórfyrirtækjum landsins. Það er með 160 starfsmenn á Austurlandi og annað eins í Hafnarfirði, einkum faglærða menn eins og rafvirkja, vélvirkja, vélstjóra, tæknifræðinga, smiði og suðumenn.

Guðgeir Sigurjónsson, framkvæmdastjóri VHE á Austurlandi, segir að þetta séu orðin hálaunastörf og mjög góður iðnaður. Í næsta mánuði bætist við ný kersmiðja Fjarðaáls, sem vélaverkstæðið hefur tekið að sér að reka, og þá fjölgar starfsmönnum VHE upp í 350. Guðgeir segir að fyrirtækið vanti bæði stálsmiði og vélvirkja en hörgull sé á slíkum starfsmönnum á Íslandi.

Þeir halda lager fyrir álverin og selja þeim rekstrarvörur, eins og handverkfæri, skautgaffla, tjakka og slöngur. Þeir hanna jafnframt og smíða sérhæfð tæki fyrir álverin og hefur það leitt til útflutnings til álvera erlendis. Guðgeir segir fyrirtækið farið að flytja út þónokkuð af slíkum vélbúnaði. Sá geiri eigi eftir að stækka enda leggi fyrirtækið áherslu á útflutninginn.

VHE er einnig í verkefnum utan álveranna, eins og fasteignarekstri á Austurlandi og brúarsmíði fyrir Vegagerðina.

Guðgeiri finnst sem margir átti sig ekki á umsvifunum sem fylgi álverunum á Íslandi. Fólk úti á landi, og sérstaklega á Austurlandi, geri sér þó fullkomlega grein fyrir þessu.

"En ég er hræddur um að fólk í 101 átti sig ekki alveg á þessu hvað þetta er rosalega öflug og mikil starfsemi og mikil innspýting inn í þjóðarbúið. Og þetta hefur verið rosaleg innspýting fyrir Austurland," segir Guðgeir Sigurjónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×