Skoðun

Kvikmyndahús – slæmur félagsskapur fyrir börn?

Pétur Rúðrik Guðmundsson skrifar
Sem foreldri reyni ég að koma í veg fyrir að börnin mín lendi í slæmum félagsskap, sem gæti skilið eftir sig ör alla þeirra ævi. Ég er mjög meðvitaður um hverjir eru að leika við börnin mín og hvar þau eru að leika sér. Ég reyni að fylgja samfélagslegum viðmiðum um útivistartíma og annað sem snýr að lögum og reglum gagnvart börnum mínum.

Ég fór í bíó um daginn og þar voru til sýningar nýjustu Leðurblöku- og Kóngulóarmyndirnar. Mér var litið á hvaða aldur væri leyfilegur á þessar myndir og sá að þar var táknið 7, sem miðast við að ekki sé mælt með þeim fyrir börn undir sjö ára aldri. Ég hef mjög gaman af svona ofurhetjum og finnst gaman þegar ég get tekið strákinn með, því honum þykja ofurhetjumyndir mjög skemmtilegar. Ég fór með hann á myndina John Carter fyrir nokkru síðan. Hún var einnig með táknið 7. Eftir að hafa horft á hana með drengnum, þá fannst mér ekki allt vera með felldu miðað við hvað það voru ljót atriði í myndinni. Ég ákvað að kíkja á netið og reyna að finna hvaða aldursflokki myndin tilheyrði og þar kom í ljós að hún var merkt ?PG-13? af framleiðendum.

Í ljósi þessarar reynslu, þá ákvað ég að kynna mér aðeins umfjöllun um þessar tvær nýju ofurhetjumyndir. Þar eru flestir sammála um að þær séu frekar drungalegar og þarna sé verið að höfða meira til fullorðinna en barna. Einn gagnrýnandinn sem skrifaði um Kóngulóarmanninn sagði að sér hefði fundist hann vera á skrímslamynd eftir hlé. Þetta er auðvitað huglægt mat þeirra sem hafa verið að skrifa um myndirnar. Ég fór því á netið og skoðaði síðu sem kvikmyndahúsin vísa sjálf á (www.imbd.com). Þar kom í ljós að þær eru með merkingu ?PG-13.? Sem samkvæmt Motion Picture Association of America (MPAA) þýðir að atriði í myndinni séu ekki við hæfi barna undir 13 ára aldri. ?PG-13 – Parents Strongly Cautioned – Some Material May Be Inappropriate For Children Under 13. These films may contain sex references, up to four uses of explicit language, drug innuendo, strong crude/suggestive humor, mature/political themes, moderately long horror moments, and/or moderate action violence.? Af hverju eru íslensku kvikmyndahúsin að breyta þessum merkingum og hver gefur þeim leyfi til þess?

Nýlega fór maður að nafni James Holmes inn í kvikmyndahús í Bandaríkjunum þar sem verið var að sýna nýjustu Leðurblökumyndina og skaut þar til bana tólf manns og særði 58 manns. Hann kallaði sig ?Jókerinn? sem er einn af höfuðandstæðingum Leðurblökumannsins. Þó að kvikmyndaframleiðendur muni reyna að sannfæra okkur um að þessi hegðun hafi ekkert með kvikmyndir þeirra að gera, þá er ég nokkuð viss um að svo sé. Ég spyr því sjálfan mig, ef kvikmyndir geta mögulega haft svona áhrif á doktorsnemann James Holmes, hvernig mótar þetta og hefur áhrif á börnin okkar þegar þau horfa á það ofbeldi og þann ljótleika sem þessar myndir hafa fram að færa?

Mögulega eru ekki til lög eða reglugerðir um aldurstakmark fyrir þá sem sækja kvikmyndir eða þá að eftirlitsaðili stendur sig ekki hvað þessi mál varðar. Hvað er þá til ráða? Finnst okkur sem foreldrum að þetta hafi það lítil áhrif á líðan og hegðun barna okkar að við þurfum ekkert að bregðast við þessu?

Ég ætla allavega ekki að taka þá áhættu að barnið mitt taki upp á því að fara í kvikmyndahús í framtíðinni með skotvopn og skjóti til bana gesti kvikmyndahúsa. Þar á meðal önnur börn til að herma eftir uppáhaldsofurhetju eða ofurskúrki.

Ég mun áfram fara í kvikmyndahús í fylgd barna minna en ég mun vera varkárari, þar sem félagsskapinn tel ég vera slæman. Ég ætla einnig að benda öðrum á þennan slæma félagsskap sem kvikmyndahúsin eru á meðan vinnubrögð þeirra eru eins og raun ber vitni. Persónulega finnst mér gaman að fara í bíó eins og mörgum landsmönnum en mér finnst það vera lágmarkskrafa að forsvarsmenn kvikmyndahúsanna séu heiðarlegir í samskiptum við okkur. Það á ekki að þurfa lög og reglugerðir.




Skoðun

Sjá meira


×