Innlent

Hrafnhildur úr landi eftir frumsýningu á mynd Ragnhildar Steinunnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hrafnhildur er pínu kvíðin fyrir myndinni.
Hrafnhildur er pínu kvíðin fyrir myndinni.
Heimildarmyndin „Hrafnhildur" verður frumsýnd í Bíó Paradís í kvöld. Eins og Vísir hefur áður greint frá er fylgst með kynleiðréttingaferli Hrafnhildar, allt frá því að hún er strákur og heitir Halldór. Hrafnhildur hefur sjálf ekki séð myndina og segist í samtali við Vísi vera pínu kvíðin. „Það er pínu kvíði og ég er búin að koma því þannig fyrir að ég er á leiðinni til Spánar strax um nóttina. Þannig að ég horfi bara á myndina og fer síðan til Spánar," segir hún.

Hún segist samt ekki vera hrædd við móttökurnar. „Miðað við hvernig þetta hefur gengið er ég ánægð með móttökurnar," segir hún. „Í öðrum löndum hefði þetta verið dauðadómur. Þannig að það er rosalega mikill munur á íslensku samfélagi og útlensku hvað þetta varðar," segir hún. Hennar nánasta fólk hafi líka tekið þessu mjög vel.

Breytingaferlið hjá Hrafnhildi hefur tekið nokkur ár, en erfitt er að fastsetja hvenær það hófst. „Það er enginn fastur tímapunktur sem er skráð hvenær eitthvað ákveðið ferli hefst," segir hún. Ferlið hefur strembið en líka skemmtilegt. Hrafnhildur segir að það hafi verið erfitt að horfa upp á áhyggjur annarra af sér og efa og kvíða, en einnig hafi verið strembið að horfa upp á líkamlegar breytingar. Hún segir að nándin hafi líka verið strembin enda er samfélagið sem við búum í lítið.

Hrafnhildur hét Halldór fyrir kynleiðréttinguna.
Skemmtilegast þykir henni hins vegar að sjá að fólk, sem er henni nátengt, hefur séð að hún kemur heil út úr þessu ferli. „Ég hef komið út heil hinu megin," segir hún. Hún segist líka hafa orðið vör við það að þetta ferli geti orðið öðrum hvatnig í baráttu gegn mótlæti, af hvaða tagi sem er.

Hrafnhildur fer fögrum orðum um Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur sem hafði veg og vanda að gerð myndarinnar. „Hún er algjör snillingur," segir Hrafnhildur og bætir því við að með gerð myndarinnar hafi hún verið að sanna sig sem samfélagsrýnir. Það sé ekki lítið verk að gera mynd eins og þessa.

Loks segist Hrafnhildur vera þakklát fyrir þau viðbrögð sem hún hafi fengið á meðan á ferlinu stóð. „Það er alveg himinn og haf að vera pínulítið öðruvísi í þessu samfélagi miðað við hvað það var," segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×