Sport

Serena nýtti sér rifrildið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Serena Williams
Serena Williams Nordicphotos/Getty
Serena Williams vann sinn 49. titil í einliðaleik þegar hún lagði Jelenu Jankovic í úrslitum á Family Circle Cup í Charleston í Suður-Karolínu í gær.

Jankovic vann fyrsta settið 6-3 en Serena sneri við blaðinu í næstu tveimur settum þegar hún vann tólf lotur af fjórtán og settin 6-0 og 6-2.

Efsta kona heimslistans lenti í orðaskaki við Jankovic eftir fyrsta settið. Þótti Serenu mótherji sinn fara full geyst í uppgjöfina og taldi sig ekki tilbúna.

„Í fullri hreinskilni þá áttu við vandamál að stríða," öskraði Serena yfir völlinn á mótherja sinn frá Serbíu. „Þú verður að bíða eftir að ég sé tilbúin," sagði Serena.

Jankovic kvartaði yfir ummælum Serenu við dómarann og sagði hana ekki eiga að fá neina sérmeðferð. Hvort sem það var rifrildið eða ekki setti Serena í gír og gekk frá Jankovic í leiknum. Þær tókust svo í hendur í leikslok, brosandi, að hætti heiðurskvenna.

„Ég er prúðasti spilarinn fyrir utan Venus (innsk: eldri systir Serenu). Ég ber mikla virðingu fyrir mótherjum mínum," sagði Serena í leikslok. Hún ítrekaði að hún hefði einfaldlega ekki verið tilbúin þegar Jankvoci gaf upp.

Ekki er víst að allir taki undir orð Serenu um prúðmennsku. Eftirminnilegt er þegar hún sagði línudómara á Bandaríska meistaramótinu árið 2009 að hún ætlaði að troða tennisbolta ofan í kok hans.

Svipmyndir úr úrslitaleiknum í gær má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×