Enska utandeildarliðið Mansfield Town spilar í dag stærsta leikinn í sögu félagsins þegar Liverpool kemur í heimsókn á Field Mill völlinn í 3. umferð ensku bikarkeppninnar. Það er setið um alla miða á leikinn en samt verða 96 auð sæti á þessum leik. Völlurinn tekur 7.574 manns.
Forráðamenn Mansfield Town hafa ákveðið að heiðra þá 96 stuðningsmenn Liverpool sem létust í Hillsborough-slysinu árið 1989 með því að taka frá 96 sæti í stúkunni og merkja þau nöfnum stuðningsmannanna sem létust í slysinu. Auðu sætin munu síðan skilja að stuðningsmenn Mansfield Town og stuðningsmenn Liverpool.
Hugmyndin að þessum minnisvarða um þá sem fórust kom frá einum stuðningsmanna Mansfield Town og forráðamenn félagsins tóku strax vel í hana. „Einn stuðningsmanna okkar lagði þetta til. Ég fékk gæsahús þegar ég heyrði þetta fyrst. Þetta var undraverð hugmynd," sagði Paul Broughton yfirmaður knattspyrnumála hjá Mansfield Town .
Hillsborough-slysið varð á undanúrslitaleik Liverpool og Nottingham Forrest í enska bikarnum árið 1989 en leikurinn fór fram á heimavellin Sheffield Wednesday. 96 stuðningsmenn Liverpool krömdust þá til bana þegar alltof mikið af fólki var hleypt inn á völlinn.