Erlent

Óttast að hrossakjötshneykslið nái til 16 landa innan ESB

Nú er óttast að hrossakjötshneykslið nái til 16 landa innan Evrópusambandsins. Lögreglurannsókn á hneykslinu er hafin í tveimur af þessum löndum.

Í ljós hefur komið að í sumum af þeim réttum sem sagðir voru innihalda nautakjöt var í raun alfarið um hrossakjöt að ræða. Það eru einkum matvælaframleiðendurnir Findus og Comigel sem hafa verið í sviðsljósinu vegna málsins en báðir sérhæfa sig í tilbúnum réttum sem seldir eru í stórmörkuðum.

Breska lögreglan hefur þegar tilkynnt að hafin sé rannsókn á málinu á þeirra vegum í samvinnu við lögregluyfirvöld í fleiri löndum. Europol er einnig komið í málið.

Í gærdag bárust svo fréttir um að efnahagsbrotadeild lögreglunnar í Frakklandi hafi látið til skarar skríða með húsleitum hjá Comigel og Spanghero kjötvinnslunni sem útvegaði Comigel kjöt.

Allt bendir til að hrossakjötið sem hér um ræðir eigi uppruna sinn að rekja til Rúmeníu þótt stjórnvöld þar þvertaki fyrir slíkt. Forseti Rúmeníu hefur hinsvegar gefið út yfirlýsingu þar sem segir að trúverðugleiki landsins sé í húfi og hætta á efnahagsþvingunum sé til staðar ef rétt reynist að rúmensk sláturhús séu upphafið að þessu hneyksli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×