Kínverskt skipafélag ætlar að senda fullhlaðið flutningaskip frá Kína til Evrópu í gegnum Norður-Íshafið eða norðausturleiðin meðfram Rússlandi og Noregi í sumar.
Skipið mun fara sömu leið og ísbrjóturinn Snædrekinn fór síðasta sumar en ísbrjóturinn kom hingað til lands í lok þeirrar siglingar.
Í frétt um málið á Reuters segir að góður árangur Snædrekans sé grundvöllur þess að skipafélagið ætli að senda eitt af flutningaskipum sínum þessa leið í sumar. Áætlað er að reglulegar siglingar flutningaskipa frá Kína verði á þessari leið strax árið 2020.
Norðausturleiðin milli Kína og Evrópu er rúmlega 5.000 kílómetrum styttri en núverandi siglingaleið í gengum Súez skurðinn. Því er hægt að spara mikinn siglingartíma og eldsneyti með því að fara hana.
Í hinni sögulegu för Snædrekans síðasta sumar voru tveir Íslendingar um borð í ísbrjótinum. Egill Þór Níelsson gistifræðimaður við Heimskautastofnun Kína var með í förinni frá upphafi. Ingibjörg Jónsdóttir dósent við Háskóla Íslands var með um borð þegar ísbrjóturinn hélt aftur heim á leið frá Íslandi yfir Norðurpólinn og til Kína .
Vísindamennirnir um borð í Snædrekanum söfnuðu saman aragrúa upplýsinga um norðausturleiðina þann rúma mánuð sem siglingin tók frá Qingdao í Kína til Reykjavíkur.
