Erlent

Tsarnaev segist saklaus

Jóhannes Stefánsson skrifar
Tsarnaev segist saklaus af árásunum í Boston þann 15. apríl síðastliðinn
Tsarnaev segist saklaus af árásunum í Boston þann 15. apríl síðastliðinn AFP
Dzhokhar Tsarnaev sem grunaður er um ódæðin í Boston-maraþoninu sagðist saklaus af öllum ákæruliðum fyrir dómi í Boston í dag.

Ákæruliðirnir voru lesnir upp fyrir honum en hann sagðist saklaust af öllum þeirra. Ákæruvaldið vestanhafs metur nú hvort það hyggist fara fram á dauðarefsingu yfir honum 19 ára gamla Tsarnaev. Hann var með gips á öðrum handleggnum.

Hann brosti að systrum sínum í dómsalnum, en hann virtist meiddur á kjálka. Fullt var út úr dyrum þar sem fórnarlömb, fjölskyldumeðlimir þeirra, lögregluþjónar og fjölmiðlamenn sátu þétt til að fylgjast með.

Tsarnaev virtist subbulegur og leit út fyrir að leiðast réttarhöldin.

Þrír létust í árásunum sem áttu sér stað þann 15. apríl síðastliðinn. Meira en 260 særðust í árásinni. Yfirvöld vestanhafs segja Tsarnaev hafa skipulagt árásina ásamt bróður sínum, Tamerlan Tsarnaev, en hann lést þremur dögum eftir sprengingarnar í byssubardaga við lögreglu.

Yngri bróðirinn fannst í bát sem hann faldi sig í en hann hafði, að sögn lögreglu, skrifað ástæður sínar fyrir árásinni innan í skrokk bátsins. Þar mun hann hafa sagt Bandaríkin vera að drepa „óbreytta borgara okkar." Tsarnaev er múslimatrúar og skrifaði einnig: „Mér er illa við að drepa saklaust fólk... Við múslimar erum sem einn, ef þú meiðir einn okkar meiðiru okkur alla."

Nánar er sagt frá málinu á vef Fox News.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×