Sport

Jón Margeir setti Evrópumet og nældi í silfur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Margeir með verðlaun sín.
Jón Margeir með verðlaun sín. Mynd/Sverrir Gíslason
Jón Margeir Sverrisson, sundmaður úr Fjölni/Ösp, vann til silfurverðlauna í 200 metra skriðsundi í flokki S14 á HM í sundi fatlaðra í Montreal í nótt.

Jón Margeir bætti sinn besta tíma og setti Evrópumet og Íslandsmet á tímanum 1:59,30 mínútum. Hann varð tæpri sekúndu á eftir sigurvegaranum Daniel Fox frá Ástralíu. Ástralinn, sem setti heimsmet í greininni í apríl, hafði sigur á 1:58,45 mínútum og var hársbreidd frá heimsmetinu, 1:58,42 mínútum.

Jón Margeir og Daniel Fox áttu báðir frábæran endasprett í úrslitunum. Refurinn frá Ástralíu gerði frábærlega því hann sneri fimmti eftir 50 metra. Hann sótti hins vegar í sig veðrið og átti frábæra síðustu fimmtíu metra líkt og Jón Margeir.

Á Ólympíumótinu í London fyrir ári var það Jón Margeir sem hafði betur eftir æsilegan endasprett. Nú hafði ástralski refurinn hins vegar betur. Suður-Kóreumaðurinn Wonsang Cho hafnaði í þriðja sæti líkt og í London síðastliðið sumar.

Sundið var í beinni útsendingu hér á Vísi.

Jón Margeir, Fox og Cho.Mynd/Sverrir Gíslason



Fleiri fréttir

Sjá meira


×