Sport

Jón Margeir varð sexfaldur Norðurlandameistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Margeir Sverrisson og íslenski hópurinn á mótinu.
Jón Margeir Sverrisson og íslenski hópurinn á mótinu. Mynd/Fésbókarsíða Jóns Margeirs
Jón Margeir Sverrisson, Ólympíumeistari fatlaðra frá því í London 2012, vann sex einstaklingsgull á Norðurlandamóti fatlaðra í sundi sem fór fram í Stokkhólmi í Svíþjóð um helgina.

Jón Margeir vann fjögur gull á laugardaginn og bætti síðan við tveimur gullum í dag. Íslenski hópurinn vann alls níu gullverðlaun á mótinu þar af var eitt þeirra í boðsundi.

Kolbrún Alda Stefánsdóttir varð bæði Norðurlandameistari í 50 metra baksundi og 50 metra bringusundi og tók síðan þátt í að tryggja íslensku sveitinni sigur í 4 x 50 metra boðsundi. Aðrar í gullsveitinni voru þær Thelma Björg Björnsdóttir, Sandra Gunnarsdóttir og Aníta Ósk Hrafnsdóttir.

Á laugardaginn vann Jón Margeir 100 metra skriðsund á 56,29 sekúndum, 50 metra flugsund á 28,09 sekúndum, 200 metra skriðsund á 2:00.91 mínútum og 100 metra flugsundi á nýju Íslandsmeti eða 1:02.12 mínútum.

Jón Margeir vann 50 metra skriðsund í dag á 25,85 sekúndum sem er nýtt Norðurlandamet. Hann setti einnig Norðurlandamet þegar hann kom fyrstur í mark í 200 metra fjórsundi á 2:23.54 mínútum.

Jón Margeir vann einnig silfur og brons með íslensku boðssveitinni og hlaut því alls átta verðlaun á Norðurlandamótinu í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×