Innlent

Ósáttur við yfirlýsingar starfskonu Sólstafa

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Oddgeir Einarsson hæstaréttarlögmaður er verjandi eins mannanna sem grunaðir eru um kynferðisbrot á Ísafirði.
Oddgeir Einarsson hæstaréttarlögmaður er verjandi eins mannanna sem grunaðir eru um kynferðisbrot á Ísafirði.
Verjandi eins mannanna sem handteknir voru á Ísafirði um helgina grunaðir um kynferðisbrot gagnvart ungri stúlku í bænum segir að starfskona Sólstafa sem Fréttastofa Stöðvar 2 ræddi við í gær hafi farið fram úr sér.

Oddgeir Einarsson, hæstaréttarlögmaður og verjandi eins mannanna, segir í yfirlýsingu að þrír mannanna séu ekki lengur taldir hafa brotið gegn konunni sem endurspelgist í þeirri staðreynd að ekki var óskað eftir farbanni yfir þeim. Þá sé alger óvissa enn sem komið er um hvort hinir tveir hafi framið refsivert brot.

Til þess fallið að vekja ótta og reiði

Oddgeir segir að innistæðulausar fullyrðingar starfskonu Sólstafa um einstaklinga á Ísafirði séu til þess fallnar að vekja ótta og reiði hjá fólki, ungu sem öldnu, sem gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar og skaðað þá sem síst skyldi.

Hann segir að best færi á því að starfskonan viðurkenndi einfaldlega að hafa orðið á í messunni enda geti öllum orðið á.

Lögmaðurinn segir að ómögulegt sé fyrir aðra en viðstaddir voru meint brot að vita með fullri vissu hvað gerðist í raun, það eina sem liggi fyrir á þessari stundu sé að kona ásaki einhverja um að hafa brotið á sér og að þeir hafni þeim ásökunum.

Hann segir það áðdáunarvert þegar fólk verji tíma sínum í að hjálpa fólki. Þá sé það einnig gott að Ísfirðingar sýni mögulegum þolendum afbrota stuðning.

Hjálpar engum að hrapa að ályktunum

Oddgeir biður fólk jafnframt að huga að því framvegis að taka ekki fyrirsögnum fjölmiðla um grun um afbrot sem staðfestingu á að afbrot hafi verið framið og á hvaða hátt.

Það hjálpi engum að hrapa að ályktunum áður en mál hafa verið rannsökuð, hvorki þeim sem mögulega hafi orðið fyrir broti né þeim sem mögulega eru saklausir þrátt fyrir að hafa verið grunaðir í upphafi máls.

Yfirlýsing verjandans í heild sinni:

Á laugardaginn sl. birtust fréttir í netmiðlum um að fimm menn væru grunaðir um að hafa nauðgað konu á Ísafirði. Ég er verjandi eins mannanna.

Í kvöldfréttum stöðvar 2 í gær, sunnudag,  var viðtal við Hörpu Oddbjörnsdóttur, starfskonu Sólstafa, sem kölluð eru systursamtök Stígamóta á Vestfjörðum á heimasíðu félagsins. Tilefnið var mál sem varðar ásakanir á hendur nokkrum karlmönnum um kynferðisbrot á Ísafirði aðfararnótt sl. laugardags. Í viðtalinu fullyrti Harpa m.a. að þetta væri „rosalegt brot“ og að það væri „náttúrulega alltaf erfitt að hugsa til þess að svona menn gangi lausir“og að það væri „auðvitað óþægileg tilhugsun að vita af þeim hér í bænum“. Þá sagði hún að hugur bæjarbúa væri hjá konunni sem „brotið hefði verið gegn“. Þrátt fyrir þessar afdráttarlausu yfirlýsingar um atvik málsins kom fram hjá henni að hún vissi ekki til þess að konan hefði leitað til Sólstafa.

Ég tel að hér hafi Harpa, sem starfskona Sólstafa, farið fram úr sjálfri sér. Þrír mannanna eru ekki lengur taldir hafa brotið gegn konunni sem endurspeglast í þeirri staðreynd að ekki var óskað eftir farbanni yfir þeim. Alger óvissa er enn sem komið er um hvort hinir tveir þeir hafi framið refsivert brot. Innistæðulausar fullyrðingar starfskonu Sólstafa um einstaklinga á Ísafirði eru til þess fallnar að vekja ótta og reiði hjá fólki, ungu sem öldnu, sem gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar og skaðað þá sem síst skyldi. Að mínu mati færi best á því að Harpa viðurkenndi einfaldlega að hafa orðið á í messunni enda getur öllum orðið á.

Ómögulegt er fyrir aðra en viðstaddir voru meint brot að vita með fullri vissu hvað gerðist í raun. Það eina sem liggur fyrir á þessari stundu er að kona ásakar einhverja um að hafa brotið á sér og að þeir hafni  þeim ásökunum. Tveir menn eru í farbanni en lögregla sá ekki ástæðu til að óska eftir farbanni yfir þremur að loknum skýrslutökum.

Rétt er að taka fram að málið er í rannsókn hjá lögreglunni á Ísafirði sem vinnur að því að upplýsa málið eins vel og unnt er áður en tekin verður ákvörðun um hvort einhverjir hinna grunuðu verði ákærðir fyrir brot. Fari svo að einhverjir verði ákærðir fer fram sönnunarfærsla fyrir dómi og síðan sker dómstóll um hvort viðkomandi sakborningar séu sakfelldir eða sýknaðir.

Það er að mínu mati aðdáunarvert þegar fólk eins og Harpa og samstarfsmenn hennar verja tíma sínum í að hjálpa fólki. Það er einnig gott að Ísfirðingar sýni mögulegum þolendum afbrota  stuðning. Ég bið fólk jafnframt að huga því framvegis að taka ekki fyrirsögnum fjölmiðla um grun um afbrot sem staðfestingu á að afbrot hafi verið framið og á hvaða hátt. Það hjálpar engum að hrapa að ályktunum áður en mál hafa verið rannsökuð, hvorki þeim sem mögulega hafa orðið fyrir broti né þeim sem mögulega eru saklausir þrátt fyrir að hafa verið grunaðir í upphafi máls.


Tengdar fréttir

Bæjarbúar slegnir vegna kynferðisbrots

Lögreglan handtók fimm menn á Vestfjörðum í nótt í tengslum við alvarlegt kynferðisafbrot. Sóknarprestur á Ísafirði segir bæjarbúa slegna vegna málsins.

Aðeins tveir í farbanni

Lögreglan á Vestfjörðum hefur farið fram á að tveir mannana fimm sem voru handteknir á Ísafirði í gærmorgun, grunaðir um kynferðisbrot gagnvart ungri stúlku á Ísafirði, verði settir í farbann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×