Fótbolti

Ólafur og Rúna gáfu flestar stoðsendingar

Ólafur Páll Snorrason úr FH og Rúna Sif Stefánsdóttir úr Stjörnunni.
Ólafur Páll Snorrason úr FH og Rúna Sif Stefánsdóttir úr Stjörnunni.
Ólafur Páll Snorrason úr FH og Rúna Sif Stefánsdóttir úr Stjörnunni áttu flestar stoðsendingar í Pepsi-deildum karla og kvenna á árinu 2013. Þetta kemur fram í bókinni Íslensk knattspyrna 2013 eftir Víði Sigurðsson sem var kynnt á fréttamannafundi í dag, þar sem þau fengu verðlaun fyrir frammistöðu sína frá Bókaútgáfunni Tindi.

Þetta er í annað sinn á þremur árum og í þriðja sinn alls sem Ólafur Páll á flestar stoðsendingar en þær voru 11 talsins hjá honum í deildinni í ár. Rúna Sif hlýtur hinsvegar þessa viðurkenningu í fyrsta skipti en hún lagði upp 16 mörk fyrir Íslandsmeistara Stjörnunnar.

FH átti tvo efstu menn í Pepsi-deild karla því Samuel Tillen varð annar með 10 stoðsendingar og þriðji varð síðan Atli Sigurjónsson, leikmaður Íslandsmeistara KR, sem átti 9 sendingar sem gáfu mörk.

Í Pepsi-deild kvenna varð Harpa Þorsteinsdóttir úr Stjörnunni í öðru sæti með 14 stoðsendingar en hún varð jafnframt markadrottning deildarinnar með 28 mörk. Jafnar í 3.-5. sæti urðu síðan Dóra María Lárusdóttir úr Val, Sigrún Ella Einarsdóttir úr FH og Teresa Rynier úr FH, með 10 stoðsendingar hver.

Bókaútgáfan Tindur veitti jafnframt árleg heiðursverðlaun sín og þau hlutu að þessu sinni Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson, þjálfarar karlalandsliðs Íslands, fyrir frábæran árangur liðsins sem komst í umspil fyrir heimsmeistarakeppnina í Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×