Innlent

Barnabætur verða ekki lækkaðar á næsta ári

Heimir Már Pétursson skrifar
Barnabætur verða ekki lækkaðar í fjárlögum næsta árs eins og til stóð. Þetta kom fram í svari Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við fyrirspurn Árna Páls Árnasonar formanns Samfylkingarinnar á Alþingi í dag. Árni Páll gagnrýndi að til stæði að lækka þessar bætur sem og vaxtabætur og vitnaði þar til ummæla Vigdísar Hauksdóttur formanns fjárlaganefndar í fjölmiðlum í gærmorgun og Bjarna Benediktssonar um helgina.

„Hvað varðar það sem háttvirtur þingmaður nefndi sérstaklega, barnabætur, þá var jú umræða um það. En ég geri ekki ráð fyrir að það verði nein skerðing á barnabótum þegar niðurstaða fjárlagavinnunnar liggur fyrir.Og þar með er þessi ríkisstjórn að standa vörð um gríðarlega aukningu barnabóta,“ sagði forsætisráðherra.

„Virðulegur forseti, við erum að heyra hér mikil tíðindi frá hæstvirtum forsætisráðherra. Hann er s.s. að draga til baka það sem háttvirtur þingmaður Vigdís Hauksdóttir fræddi okkur á í gærmorgun í Morgunútvarpinu,“ sagði Árni Páll. En Vigdís hefði vísað til þess aftur og aftur að hún væri að greina frá samþykktri stefnu ríkisstjórnarinnar.

Sigmundur Davíð sagði undarlegt af Árna Páli að gagnrýna fyrst að skerða ætti bæturnar en setja svo út á það að hætt hefði verið við það. Ríkisstjórnin hefði þurft að velta við öllum steinum til að ná fram sparnaði í ríkisútgjöldum og þetta hefði verið ein leiðin sem verið hefði til skoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×