Handbolti

Arnór og Guðjón Valur fara ekki með til Þýskalands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Arnór Atlason og Guðjón Valur Sigurðsson á Ólympíuleikunum í London sumarið 2012.
Arnór Atlason og Guðjón Valur Sigurðsson á Ólympíuleikunum í London sumarið 2012. Mynd/Valli
„Ég held ég nýtist betur hér heima en úti í Þýskalandi þar sem ég geri liðinu ekki mikið gagn án bolta í hendinni,“ segir landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson.

Guðjón Valur á við meiðsli að stríða í kálfa líkt og félagi hans í landsliðinu Arnór Atlason. Hvorugur æfði með landsliðinu nú um helgina og fara ekki með liðinu til Þýskalands á föstudag. Þar mætir liðið Þjóðverjum, Rússum og Austurríkismönnum í þremur æfingaleikjum á jafnmörgum dögum.



„Það er ekket vit í því að eyða föstudeginum og mánudeginum í ferðalög. Ég vil frekar nota þessa daga í meðhöndlun. Það verður einn sjúkraþjálfari hér heima sem kemur til með að sjá um okkur.“



Á meðan Guðjón Valur lyfti á æfingu dagsins var Arnór Atlason í léttum æfingum á parketgólfi Austurbergs.



„Ég get gert léttar æfingar en það er langur vegur á milli þess að gera þær og spila á Evrópumóti,“ segir Arnór. Hann ætli ekkert að láta reyna á kálfann fyrr en landsliðið snýr aftur úr æfingaferðinni til Þýskalands. Hann segist þó bjartsýnn enda leyfi hann sér ekkert annað.



„Ég finn ekki verki en ég veit þó hvar grensan er. Ég gæti rústað öllu ef ég færi á æfingu. Það er það sem ég má ekki gera, byrja að æfa of snemma.“



Fyrsti leikur Íslands á Evrópumótinu er gegn Noregi þann 12. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×