Enski boltinn

Gylfi tryggði Tottenham jafntefli annan leikinn í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson tryggði Tottenham jafntefli í öðrum leiknum í röð þegar hann skoraði þremur mínútum fyrir leikslok í 2-2 jafntefli á heimavelli á móti Everton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Gylfi skoraði markið á 87. mínútu þegar hann fylgdi á eftir skoti Emmanuel Adebayor sem fór í stöngina og fyrir markið. Gylfi var á réttum stað í markteignum og skoraði örugglega.

Gylfi tryggði Tottenham 2-2 jafntefli á móti svissneska liðinu Basel í Evrópudeildinni á fimmtudagskvöldið. Hann hefur nú skorað sex mörk á tímabilinu þar af tvö þeirra í deildinni.

Tottenham fékk algjöra draumabyrjun í leiknum. Emmanuel Adebayor kom nefnilega Tottenham í 1-0 eftir 34 sekúndur en Everton kom til baka og komst yfir áður en Gylfi tryggði Tottenham eitt stig.

Emmanuel Adebayor skoraði í fyrstu sókn leiksins þegar hann afgreiddi fyrirgjöf Jan Vertonghen frá vinstri kanti. Phil Jagielka jafnaði metin á 15. mínútu þegar hann skallaði inn hornspyrnu Leighton Baines.

Kevin Mirallas kom Everton yfir á 53. mínútu eftir laglega einleik í gegnum vörn Tottenham. Frábært mark sem leit lengi út fyrir að ætlaði að verða sigurmarkið í leiknum eða þar til að Gylfi reddaði sínum mönnum í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×