Innlent

Arnarpar reynir varp að nýju

Svavar Hávarðsson skrifar
Svo virðist sem skemmdarverk mannanna hafi ekki gert arnarparið afhuga varpi þetta árið.
Svo virðist sem skemmdarverk mannanna hafi ekki gert arnarparið afhuga varpi þetta árið. Mynd/Róbert A. Stefánsson
Skemmdarverk á arnarhreiðri í eyju á sunnanverðum Breiðafirði virðist ekki ætla að hindra arnarparið í að reyna varp aftur á sama stað. Það hefur nú byggt upp nýjan hreiðurlaup. Vegna skemmdarverksins verður hreiðrið vaktað úr landi og af sjó, segir í frétt Náttúrustofu Vesturlands.

Fyrir tæpu ári varð uppvíst um skemmdarverk á arnarhreiðri í eyju á Breiðafirði þar sem ungt arnarpar hafði búið sig undir varp. Ekkert varð úr því vegna skemmda sem unnar voru. Á þeim tíma fóru fulltrúar Náttúrustofu Vesturlands og Fuglaverndar í eyjuna til að skoða verksummerki og var aðkoman ófögur. Sýnilegar skemmdir höfðu verið unnar á hreiðrinu með því að róta í því og kasta hluta hreiðurefnisins fram af klettum niður í fjöru. Skemmdirnar voru tvímælalaust af mannavöldum.

Að þessu sinni munu ýmsir aðilar fylgjast vandlega með hreiðrinu úr landi og af sjó. Einnig er í skoðun að setja upp vöktunarmyndavél í nágrenni við hreiðrið.

Örninn hefur verið strangfriðaður í tæpa öld og ekki þarf að taka fram að skemmdarverkið var skýlaust lögbrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×