Eins og greint var frá í gær mun Jón ekki gefa aftur kost á sér í embættið í kosningunum næsta vor, en hann settist í borgarstjórastól árið 2010.
Velunnarar Jóns þökkuðu fyrir sig á Facebook-síðunni Dagbók borgarstjóra í gær og ljóst er að Jóns verður saknað af mörgum þegar hann lætur af embætti.
„Hef búið í Breiðholti allt mitt líf og hef aldrei séð neitt breytast jafn mikið og á meðan þú gegndir embætti borgarstjóra,“ skrifar einn. „Eitt er víst að ég mun sakna þín sem borgarstjóra en ég skil vel að þú þennir þessu ekki,“ segir annar, en Jón sagði í gær að hann væri grínisti en ekki stjórnmálamaður.
„Mig langar til að fara að gera eitthvað annað sem er uppbyggilegra og skapandi, meiri ævintýri og meiri gleði,“ sagði Jón í útvarpsþættinum Tvíhöfða sem var á dagskrá Rásar 2 í gær, um leið og hann tilkynnti að Besti flokkurinn yrði lagður niður.