Erlent

Frönsk yfirvöld vilja banna ósanngjarna samkeppni Amazon

Jóhannes Stefánsson skrifar
Ekki fylgir sögunni hvað íbúum Frakklands finnst um að geta fengið fría heimsendingu á bókum.
Ekki fylgir sögunni hvað íbúum Frakklands finnst um að geta fengið fría heimsendingu á bókum. Mynd/ AFP
Ríkisstjórn Francois Hollande, forseta Frakklands, áformar að banna ósanngjarna samkeppni netrisans Amazon. Háttsemi Amazon felst í því að veita viðskiptavinum sínum afslátt af bókum og fría heimsendingu þeirra bæði í senn.

Slíka viðskiptahætti segja franskir bókasalar ósanngjarna enda eiga þeir erfitt með að keppa við verð netrisans. Því hyggjast þarlend yfirvöld banna umdeilda viðskiptahætti Amazon.

„Við þurfum lög"

„Ég er fylgjandi því að koma í veg fyrir að boðið sé upp á fría heimsendingu og fimm prósent afslátt bæði í senn," sagði Aurelie Filippetti, menningarráðherra Frakklands. „Við þurfum lög, þannig að við erum að leita að leiðum til að koma þeim á."

Amazon hefur neitað að tjá sig um málið.

Ummæli Filipetti auka enn á spennu sem ríkir á milli franskra yfirvalda og bandarískra netfyrirtækja á borð við Amazon og Google, sem hafa verið gagnrýnd fyrir að borga þeim sem skapa menningartengt efni og fréttaefni of lítið fyrir.

Líkt og gildir í öðrum Evrópulöndum er aðilum í smásölu bannað að veita meira en 5% afslátt af verði sem útgefandinn leggur þeim til. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að stór fyrirtæki á markaðnum geti undirverðlagt þau smærri.

Guillaume Husson, talsmaður stéttarfélags bókaútgefenda (SLF) sagði að háttsemi Amazon fæli það í sér að þeir væru að selja bækur með tapi, sem hefðbundnir bókasalar gætu ekki keppt við.

„Samkeppnin er ósanngjörn í dag... Það getur enginn annar smásali á bókum, stór eða smár, leyft sér að tapa jafn miklum pening," sagði hann.

Stéttarfélagið hefur höfðað mál á hendur Amazon í Frakklandi vegna ósanngjarnrar samkeppni.

Menningarráðherrann segir málið ekki bara snúast um Frakkland, heldur steðjar hættan að öðrum löndum líka. „Framkoma Amazon og hættan sem steðjar að fjölda bóksala og bókaframleiðenda á augljóslega einnig við í Bretlandi og Bandaríkjunum."

Þetta kemur fram á vef Reuters.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×