Fótbolti

Fimmtán ára landsliðið komst á Ólympíuleikana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Fésbókarsíða KSÍ
Íslenska 15 ára landslið karla tryggði sér í dag sæti á Ólympíuleikum ungmenna sem fara fram í Nanjing í Kína á næsta ári. Strákarnir gerðu það með því að vinna 3-1 sigur á Moldavíu í síðari leik sínum í forkeppni Ólympíuleika ungmenna sem haldin var í Sviss.

Hilmar Andrew McShane, sonur hins þekkta knattspyrnumanns Paul McShane, var einn af markaskorurum íslenska liðsins í leiknum en hann kom Íslandi í 2-0 á 23. mínútu. Hilmar Andrew skoraði einnig í fyrri leiknum þegar Ísland vann 2-0 sigur á Finnlandi. Framarinn Helgi Guðjónsson var þá einnig á skotskónum

Kristófer Ingi Kristinsson frá Stjörnunni og Áki Sölvason úr KA) skoruðu hin mörk íslenska liðsins í sigrinum á Moldavíu í dag.

Fjölnismaðurinn Ísak Atli Kristjánsson er fyrirliði íslenska liðsins og það er Freyr Sverrisson sem þjálfar íslensku strákana.

„Þetta er frábær árangur hjá þessu unga liði en það er skipað leikmönnum sem fæddir eru 1999.  Ljóst er að framundan er mikið ævintýri sem Ólympíuleika ungmenna bera í för með sér og verður spennandi að fylgjast með þeim á næsta ári," segir í frétt á heimasíðu KSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×